Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 13:08:49 (3860)


[13:08]
     Ragnar Arnalds (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get ekki neitað því að mér fannst upphlaup hv. þm. Guðna Ágústssonar í garð Alþb. hér áðan nokkuð undarlegt og mér fannst þessi árás á hendur fyrrv. ráðherrum Alþb. harla yfirborðsleg. Það er vissulega ekkert nýtt að það gerist að Framsfl. og ráðherrar hans standi að aðgerðum en síðan geri einstakir þingmenn flokksins tilraun til þess að skjóta sér undan ábyrgð eftir á. Þetta gerðist vorið 1991. Þá stóð Framsfl. að gerð búvörusamningsins en það mátti heyra í einstöku kjördæmum hjáróma raddir þar sem menn þóttust ekki bera neina ábyrgð á því sem þeir voru nýbúnir að rétta upp hönd til stuðnings við.
    Ég vil láta það koma hér fram að að sjálfsögðu báru stjórnarflokkarnir allir á sínum tíma fulla ábyrgð á búvörusamningnum, líka Framsfl. og þingmenn hans sem greiddu atkvæði með honum við afgreiðslu lánsfjárlaga á Alþingi. Hv. þm. sem þá voru ráðherrar, Ólafur Ragnar Grímsson og Steingrímur J. Sigfússon, skrifuðu undir búvörusamninginn fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og í samráði við ríkisstjórnina og forustumenn stjórnarflokkanna á þeim tíma, þar á meðal í samráði við þáv. forsrh. Steingrím Hermannsson. Þeir gerðu það á þann hátt sem eðlilegt þótti á þeim tíma. Það er auðvitað hin mesta fjarstæða að koma nú fjórum árum seinna og segja að þetta hafi verið gert á allt annan hátt en gera hefði átt því að auðvitað báru þingmenn og ráðherra Framsfl. fulla ábyrgð á þeirri tilhögun sem þarna var viðhöfð. Og ég ætla sannarlega að treysta því að þingmenn Framsfl. leitist við í framtíðinni að standa við gerðir sínar og sinna ráðherra þegar þeir eru í samstarfi við aðra flokka, þar á meðal við Alþb. sem vel má vera að verði innan tíðar og við skulum vona það að svo fari.
    En ég vil svo að endingu eindregið mælast til þess við virðulegan forseta að hann fresti þessari umræðu í dag eftir að mælendaskrá er tæmd vegna þess að það er alveg hárrétt að það kom sér mjög illa fyrir hv. þm. Steingrím J. Sigfússon að geta ekki verið viðstaddur þessa umræðu. Hann hefði gjarnan viljað það og ég kem þessum tilmælum eindregið á framfæri við forseta.