Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 13:49:14 (3864)


[13:49]
     Guðný Guðbjörnsdóttir :
    Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir skýrsluna um framkvæmd búvörusamnings sem liggur fyrir og mig langar að tjá mig í örfáum orðum um innihald hennar. Ég held að það sé alveg ljóst af þeim umræðum sem hafa verið í morgun og af skýrslunni sjálfri að það hefur alls ekki verið að öllu leyti staðið við gerðan búvörusamning, einkum hvað varðar framlög til Jarðasjóðs og skógræktar og flatur niðurskurður á framleiðsluréttindum hefur orðið meiri en til stóð. Það er einnig jafnljóst að ekki hefur að öllu leyti tekist að ná þeim markmiðum sem að var stefnt. Sem sagt, það var gerður samningur og við hann var ekki staðið. Er þetta alvarlegt mál eða er við öðru að búast? Þarf ekki fólk að geta treyst því að ef samningur er gerður að við hann verði staðið?
    Auðvitað hlýtur það fyrirkomulag að stangast á að gera samkomulag til þriggja til fjögurra ára undir lok kjörtímabils og ætlast svo til að ný ríkisstjórn standi við þann samning, ríkisstjórn sem stýrir fjárlögum frá einu ári í senn. Í þetta skipti áttu sér stað stjórnarskipti og því fór sem fór. Það er því spurning hvort það fyrirkomulag, sem hefur tíðkast að undanförnu, þ.e. að gera búvörusamning undir lok kjörtímabils, er það stjórntæki sem dugar til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt í íslenskum landbúnaði. Þurfum við eitthvað betra stjórntæki eða ætlumst við til að bændur verði sjálfir að bregðast við þeirri stöðu sem þeir eru komnir í einir og óstuddir?
    Skýrslan hefur sannfært mig um að það þarf að finna traustari leiðir til að ná þeim markmiðum að í þessu landi geti þróast hagkvæmur og öflugur landbúnaður og að vöruverð til neytenda lækki án þess að kjör bændastéttarinnar verði lakari en annarra stétta. Síðast en ekki síst verðum við að reyna að átta okkur á því að það verður að lækka opinber útgjöld til þessarar framleiðslu því að satt best að segja er þessi hlið á íslenska hagkerfinu alveg með ólíkindum og hefur verið til margra áratuga og löngu er orðið tímabært að stefna í þá átt að veruleg hagræðing eigi sér stað eins og virkilega hefur verið unnið að á undanförnum árum. Því ber að fagna því að það hefur tekist að lækka framlög til landbúnaðar um 3,5 milljarða á ársgrundvelli en það er töluvert betur sem verður að gera ef duga á.
    En það þarf að sjá til þess að fólkið, sem starfar að landbúnaði, bændakonur og bændur, hafi að einhverju öðru að hverfa og mér virðist ljóst að þessi skýrsla segir okkur ekki alveg hvernig staða bænda er. Við sjáum engan veginn af henni hvað það er annað sem bændur gera úti í sveitum landsins. T.d. vitum við að konur hafa m.a. staðið þar að öflugri uppbyggingu, ferðaþjónustu og annars konar starfsemi, ullariðnaði og öðru slíku, oft af miklum krafti og hugmyndaauðgi. En það þarf að gera betur til þess að skapa aukin atvinnutækifæri úti í sveitunum þannig að þetta gerist og allir geti við unað. Að mínu mati þarf að finna fleiri valkosti í atvinnutækifærum úti um sveitir landsins og þar tel ég að ferðaþjónustan sé efst á blaði, svo og lífræn ræktun og öll sú starfsemi sem byggir á því að hér er enn þá hreint og fagurt land. Konur úti um sveitir hafa verið að gera margt að þessu leyti og frumkvæði þeirra þarf að styrkja mun betur en hingað til hefur verið gert. Stundum er undan því kvartað að þær ráðist ekki í of dýrar framkvæmdir. Þess vegna fá þær ekki þá styrki sem þeim ber að mínu mati.
    Í annan stað þarf að finna öflugra stjórntæki en að gera búvörusamning undir lok kjörtímabils af einni ríkisstjórn sem skuldbindur næstu ríkisstjórn til að standa við hann 3--4 ár fram í tímann. Ég er þeirrar skoðunar að tíminn til þess að gera slíkan samning ef vilji er fyrir hendi til þess að gera hann, sem ég tel að eigi að gera, sé í upphafi kjörtímabils þannig að allir aðilar geti tekist af heilindum á við það verkefni sem fram undan er í íslenskum landbúnaði. Það þurfti að finna öflugra stjórntæki til að ná fram því markmiði að hér verði rekinn landbúnaður sem allir geti verið stoltir af. Vandinn í þessari atvinnugrein á sér auðvitað hliðstæður bæði í landbúnaði annarra landa og í okkar eigin sjávarútvegi. Nú reynir verulega á okkur stjórnmálamenn að finna betri og réttlátari leiðir til þess að stjórna bæði landbúnaðinum og sjávarútveginum ef við eigum að geta komist upp úr þeirri efnahagskreppu eða lægð og stöðnun sem hér hefur ríkt allt sl. kjörtímabil eða í tíð núv. ríkisstjórnar ef við viljum börnum okkar von um bjartari framtíð.