Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 13:59:13 (3866)


[13:59]
     Ragnar Arnalds (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem fram kom hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni sem gerði athugasemdir við ræðu ræðumannsins hér á undan. Ég vildi bæta því við að við verðum að hafa það í huga þegar talað er um að samningur hafi verið gerður í lok kjörtímabils og hann hafi bundið þá ríkisstjórn sem tók við að með þessum samningi var verið að spara fyrir ríkissjóð miklu stærri upphæðir á þeim árum sem komu í kjölfarið, þ.e. árunum 1992--1995, en nam því sem ríkisstjórnin hefur svo aftur svikist um að standa skil á, sem sagt að ríkisstjórnin hefði ekki þurft að verja nema bara hluta af sparnaðinum sem búvörusamningurinn fól í sér fyrir ríkissjóð til þess að standa við öll ákvæði samningsins. Þetta finnst mér að þurfi að koma greinilega fram.
    Eins er rétt að hafa það í huga að þegar búvörusamningurinn hafði verið gerður þá var hann lagður fram sem fylgiskjal í tengslum við þær efnahagsaðgerðir sem þá var gengið frá áður en þing var rofið og fór heim og það stóðu allir flokkar að þeim aðgerðum þannig að þeir flokkar sem síðar urðu stjórnarflokkar og tóku við að kosningum loknum báru ekkert síður ábyrgð á þessum búvörusamningi en hinir sem gerðu hann. Með það í huga þá hefur núv. ríkisstjórn ekki neina minnstu afsökun fyrir því að hafa svikið efni búvörusamningsins og þau ákvæði sem þar voru.