Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 14:17:44 (3869)


[14:17]
     Guðmundur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Þetta var að mörgu leyti ákaflega skemmtileg ræða og fróðleg og af því að ég er nú varaþingmaður þá er ég bara talsvert upp með mér að ráðherrann beri slíkt traust til mín að hann beinir öllum spurningunum til mín og svarar ekki nokkrum sköpuðum hlut. Það er glæsilegt.
    En mér þykir líka vænt um að ráðherrann hafi lýst því yfir fyrir tveimur árum að forsendur búvörusamningsins væru brostnar og væntanlega veit hann þá hvað er til bóta. Það er ekki nóg að benda á að eitthvað sé slæmt og geta síðan ekkert bætt úr því. Hann hlýtur að hafa einhver svör frekar en það að

segja að allt sé ómögulegt. Ég verð þess vegna því miður að vísa spurningunni til baka: Hvað ætlar hann þá að gera í staðinn? Eða hvað ætlaði hann?
    Það er ekki mikill tími því miður til stefnu fyrir ráðherrann en þó, það má alltaf taka sig á og betra er seint en aldrei í langflestum tilvikum. Þess vegna spyr ég aftur og endurtek spurningar mínar, sem ég vona að ráðherrann muni, hvað hann ætli sér í þessum málum og hvað hann hafi gert.
    Það er svo allt annað mál að þó það hafi oft verið sagt um hæstv. ráðherra að hann sé framsóknarmaður í Sjálfstfl. þá má hann ekki ofmetnast af því og það þýðir ekki að benda á Framsfl. alltaf þegar eitthvað bjátar á. Hér verða menn að standa fyrir máli sínu eins og þeir eru og ef hann vill gerast framsóknarmaður þá á hann bara að ganga í flokkinn, það er enginn millivegur þar á.
    En ég held nú að ýmislegt sem hafi farið miður í atvinnumálum . . .  ( SvG: Afi hans var nú í Framsfl.) Já, það eru góð ummæli um afa hans. En ég held að ýmislegt það sem hér hefur farið miður í atvinnumálum, ég veit ekki hvort það er vegna þess að Framsfl. hafi verið bæði í stjórn og utan stjórnar heldur er miklu líklegra að það sé þrátt fyrir það og það held ég að menn ættu að hafa í huga.