Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 14:42:21 (3874)


[14:42]
     Pálmi Jónsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. 5. þm. Suðurl. viðurkennir að hafa farið rangt með. Það skiptir auðvitað máli hvort yfirlýsing er gefin í upphafi ferils eða eftir að tiltekinn ráðherra og tiltekin ríkisstjórn hefur starfað og bætt úr þeim miklu vandræðum sem þá var við að etja í offramleiðslu. Ég ætla ekki að ræða það frekar en bara benda þessum ágæta þingmanni og forneskjulega í tali á að huga betur að því að hafa hlutina rétta þegar hann fer með þá. ( GÁ: Þú meinar ártölin.)
    Ný tækifæri, segir hv. þm., og það er út af fyrir sig rétt að við eigum allt undir því að reyna að nýta þau tækifæri sem þó bjóðast fyrir landbúnaðinn. Ég segi það og ítreka að við eigum tækifæri í útflutningi. Þau eru kannski á litlum mörkuðum, sérstökum mörkuðum og dýrum mörkuðum, en hreinleiki og sérstæð gæði íslenskrar framleiðslu eru slík að við eigum að geta nýtt þessi tækifæri þannig að þau verði okkur til hagsbóta og eigi þátt í því að tryggja framtíð íslensks landbúnaðar.