Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 14:46:32 (3876)

[14:46]
     Pálmi Jónsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. verður að gera sér grein fyrir því að sölumeðferð vara er á hendi verslunaraðila. Auðvitað getur hæstv. ráðherra blandað sér í það og kvatt menn til þess að stunda það starf og kannski gripið til nokkurra aðgerða annarra. En meginatriðið er það að sölumeðferð vara er á hendi þeirra sem annast verslun og viðskipti.
    Ég veit til þess að á ódýrum markaði úti í Danmörku hjá verslunarkeðjunni Irma tókst að fá skilaverð sem var 150--160 kr. fyrir kg af dilkakjöti eins og hv. þm. nefndi hér. Úr því að hægt er að fá 150--160 kr. hjá Irma í Danmörku þá tel ég öruggt mál að hægt sé að fá verulega hærra verð hjá sérmörkuðum sem geta tekið við og boðið dýra vöru. Út af fyrir sig er því ekkert hægt að segja um það annað en ítreka að slíku þarf að sinna og slíkt er eitt höfuðverkefni sem þarf að fást við til þess að tryggja hagsmuni landbúnaðarins.
    Ég ætla ekki að svara hér fyrir hæstv. landbrh. um útflutningsbætur. Það var fyrri ríkisstjórn sem tók útflutningsbætur af, þar á meðal hv. þm. sem hér er að tala um útflutningsbætur að nýju. Það ferst honum því ekki sérstaklega vel.