Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 14:51:00 (3878)


[14:51]
     Pálmi Jónsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég sagði aldrei að þessi samningur og reglugerð sem fylgdi á eftir hefði ekki hlotið samþykki eftir á. Hins vegar kom þetta í bakið á öllum yfirlýsingum sem áður höfðu gengið af hálfu bændasamtakanna. Mér er mjög vel kunnugt um það vegna þess að ég var í nánu sambandi við forustumenn bændasamtakanna á þessum tíma. Og því var margyfirlýst að þeir sem áttu kvóta eða búmark á jörðum sínum, að það yrði ekki af þeim tekið. Það var margyfirlýst af forustumönnum bændasamtakanna og þeim mönnum sem voru í forsvari fyrir landbúnaðinn á stjórnmálavettvangi og þessi reglugerð kom gersamlega í bakið á þeim. Fjölmargir aðilar keyptu jörð á þessum tíma með miklum kvóta. Það var kannski engin eða lítil framleiðsla og forsvarsmenn bændasamtakanna sögðu: Þú mátt treysta því að kvótinn verður ekki af þér tekinn en síðan var hann af tekinn með undirskrift ráðherra. Með því var í senn farið þannig í bakið á þessum mönnum og brotin niður jafnræðisregla sem ber að hafa í heiðri samkvæmt íslensku stjórnarskránni. Það er álit lagamanna að þar með hafi verið farið gersamlega í bága við stjórnarskrána. Ef mál væri höfðað þá mundi þessi gerningur væntanlega verða dæmdur ógildur.