Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 14:52:54 (3879)


[14:52]
     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég get að sjálfsögðu ekki borið ábyrgð á yfirlýsingu forustumanna bændasamtakanna á þeim tíma en þessi samningur og reglugerð voru unnin í nánu samráði við bæði forustumenn og starfsmenn Stéttarsambands bænda og þeir hljóta að bera ábyrgð á sínum gerðum gagnvart bændum og ráðherra hlýtur að vera í góðri trú þegar hann semur um slíkt.
    Hitt get ég sagt að á næstu árum á eftir var reynt að koma til móts við þá sem í erfiðleikum stóðu og horfa á málin út frá sjónarmiðum bænda en hæstv. landbrh. var nokkuð þungorður um slík vinnubrögð áðan og gagnrýndi þau.
    Hv. 2. þm. Norðurl. v. sagði að ég hefði verið þungorður í garð hæstv. landbrh. Kannski hefur það haft einhver áhrif á mig að ég var áheyrandi á fundi með hæstv. landbrh. í gærkvöldi. Þar var hann gagnrýndur fyrir ýmislegt af sunnlenskum bændum sem voru a.m.k. á annað hundrað og gagnrýndu hans vinnubrögð. Þegar hann svarar þá segir hann að það eigi ekki að vera gagnrýna sig fyrir vinnubrögð og ásakanir um frjálshyggju. Hann gæti eins kallað fundarmenn framsóknarhunda. Það er virðingin sem hann ber fyrir sunnlenskum bændum.