Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 14:54:54 (3880)


[14:54]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í ræðu hér áðan, þá mun þessi umræða að mestu leyti hafa verið málefnaleg og efnisleg og menn haldið sig við staðreyndir. Þó mun hafa legið það sérkennilega á hv. þm. Guðna Ágústssyni, ágætum vini mínum og baráttufélaga til margra ára í umræðum að hann mun hafa kosið að fara með einhverjar sérkennilegar árásarsögur á þann sem hér stendur sem eiga sér enga stoð í veruleikanum og eru í hrópandi ósamræmi við það álit sem forustumenn bændasamtakanna, allir gæðastimplaðir framsóknarmenn í marga ættliði, hafa lýst yfir opinberlega að beri að hafa um fjármálaráðherraferil undirritaðs gagnvart bændastéttinni.
    Hv. þm. Guðni Ágústsson er fyrsti maðurinn úr röðum þeirra sem vilja telja sig forustumenn bænda sem hefur farið fram á opinberan vettvang með yfirlýsingar af því tagi sem hann lét frá sér fara hér í dag. Er kosningaskjálftinn í framsóknarmönnum á Suðurlandi virkilega orðinn svo mikill að þeir veigra sér ekki við að koma hér í ræðustól á Alþingi með staðlausa stafi sem forustumenn bændasamtakanna sjálfir eru reiðubúnir að bera til baka? Ég ræddi við Hauk Halldórsson, forustumann bændasamtakanna, eftir að þessi ræða var flutt, mann sem formaður Framsfl. hyllti sérstaklega á fimmtugsafmæli hans fyrir nokkrum dögum síðan. Og Haukur Halldórsson, formaður Stéttarsambands bænda og hinna nýju samtaka landbúnaðarins, tjáði mér að ég mætti fara með það hér í ræðustól á Alþingi, hann væri reiðubúinn að staðfesta það, og ég fer með það orðrétt, ,,að það skipti sköpum fyrir landbúnaðinn að Ólafur Ragnar Grímsson undirritaði sem fjmrh. búvörusamninginn``. Tilvitnun lýkur í Hauk Halldórsson, forustumann bændasamtakanna.
    Ég held að hv. þm. Guðni Ágústsson ætti að kynna sér betur það sem hann fer með nema það sé þannig komið fyrir þeim manni sem nú situr í sæti Jóns Helgasonar, öðrum af mætum forustumönnum bændasamtakanna hjá Framsfl. á Suðurlandi, að örvæntingin sé slík að hann hirði ekkert um staðreyndir í málinu.
    Ég ætla ekkert að verja löngum tíma hér til þess að ræða þetta. Ég tel þetta satt að segja svo ódrengilegt og ómaklegt að það taki því ekki að vera að ræða það. En ég veit að hv. þm. Jón Helgason er örugglega reiðubúinn að bera vitni um það hvernig ég brást við þegar ég tók við fjármálaráðherraembættinu gagnvart bændasamtökunum og hagsmunasamtökum bænda þegar hagsmunamál bænda höfðu lent í slíkri óreiðu í tíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar þegar Jón Baldvin Hannibalsson var fjmrh. að það varð að gera sérstakt átak til þess að greiða úr þeirri óreiðu sem nam mörg hundruð millj. kr. sem leyst var úr fyrir áramótin 1988--1989 í góðri samvinnu við hv. þm. Jón Helgason og forustumenn bændasamtakanna á þeim tíma.
    Það sem landbrh. Framsfl. í þeirri ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar tókst ekki í embætti landbrh. tókst

honum hins vegar sem þingmanni og forustumanni bændasamtakanna í ágætri samvinnu við hinn nýja fjmrh. haustið 1988. Ég þekki hv. þm. Jón Helgason það vel að drengskap og virðingu fyrir sannleikanum að hann er örugglega reiðubúinn að segja hv. þm. Guðna Ágústssyni þá sögu.
    Hv. þm. Guðni Ágústsson var ekki viðstaddur undirritun búvörusamningsins en þar flutti Haukur Halldórsson, forustumaður Stéttarsamtaka bænda, sérstakar þakkir til þáv. fjmrh., þess sem hér stendur, fyrir hlut hans í gerð búvörusamningsins og undirritun búvörusamningsins. Það var nefnilega þannig, hv. þm., að fjmrh. bar engin skylda til þess að undirrita eitt eða neitt varðandi búvörusamninginn. Málið lá þannig fyrir. Fjmrh. bar engin skylda til að undirrita eitt eða neitt verðandi búvörusamninginn. Það var forustumönnum bændasamtakanna kunnugt og þeir fóru þess vegna ekki fram á það að fjmrh. undirritaði eitt eða neitt varðandi búvörusamninginn. En það var sá sem hér stendur sem tók sjálfstæða ákvörðun, hafði sjálfur að því frumkvæði að mæta til undirritunarinnar og undirrita það --- og nú bið ég þingmanninn að hlusta vel --- undirrita það sem bændasamtökin sem samningsaðili höfðu gengið þannig frá að undirrita skyldi. Það var ekkert það skjal við undirritun búvörusamningsins sem farið var fram á að yrði undirritað sem ég undirritaði ekki. Þetta vita forustumenn bændasamtakanna og eru reiðubúnir að bera vitni um það hvar sem er og hvenær sem er. Þess vegna er það í senn bæði ódrengilegt, óeðlilegt og á engan hátt í samræmi við sannleikann og efnisþætti máls að ætla nú að fara að gera eitthvað mikið mál úr því hér á Alþingi 1995, að fjmrh. Ólafur Ragnar Grímsson hafi ekki undirritað einhverja þætti búvörusamningsins sem aldrei var farið fram á að hann undirritaði.
    Ég held að það væri nær fyrir hv. þm., sem ég hélt að hefði kannski meiri áhuga á að ráðast á Sjálfstfl. í komandi kosningabaráttu heldur en Alþb., að gera mál úr því bæði hér í þingsalnum og á Suðurlandi að það var eitt af fyrstu verkum núv. landbrh. og núv. fjmrh. --- ég bið þingmanninn að hlusta og láta ekki hv. þm. Árna Johnsen trufla sig --- að fara bæði í ræðustól hér á Alþingi og á Suðurlandi með þá staðreynd að það var eitt af fyrstu verkum núv. landbrh. og núv. fjmrh. að senda búvörusamninginn til ríkislögmanns til þess að fá álit á því hvort ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, Halldór Blöndal hæstv. landbrh. og Friðrik Sophusson hæstv. fjmrh., gætu ekki rift búvörusamningnum í heild sinni. Hæstv. landbrh. Halldór Blöndal vildi nefnilega rifta búvörusamningnum í heild sinni, ég tala nú ekki um hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson og Alþfl.
    Síðan kom álit ríkislögmanns og hvað stóð í því, hv. þm.? Að vegna undirritunar þáv. fjmrh., Ólafs Ragnars Grímssonar, væri ekki hægt að rifta búvörusamningnum. Það getur hv. þm. lesið í greinargerð ríkislögmanns til hæstv. fjmrh., Friðriks Sophussonar. Og ég man ekki betur en hæstv. fjmrh., Friðrik Sophusson, hafi síðan borið mig sökum hér á Alþingi fyrir það, að mig minnir í formlegum umræðum en kann þó að hafa verið á öðrum vettvangi, að ég hafi undirritað búvörusamninginn sem fjmrh. Málið liggur nefnilega þannig, hv. þm., að núv. ríkisstjórn, Sjálfstfl. og Alþfl., vildu rifta búvörusamningnum í heild sinni og svipta bændasamtökin og bændastéttina í landinu öllum þeim réttindum og ákvæðum sem þau fengu í búvörusamningnum. Og það var aðeins eitt sem kom í veg fyrir það ætlunarverk núv. ríkisstjórnar, það var undirritun þáv. fjmrh., Ólafs Ragnars Grímssonar.
    Ég hélt satt að segja að Framsfl. ætlaði að vera í fylgd með okkur í þessari komandi kosningabaráttu, að ráðast á Sjálfstfl., að ráðast á Alþfl, en það er greinilegt að það er eitthvað annað sem er upp á teningnum hjá leiðtoga Framsfl. á Suðurlandi vegna þess að hann hefur notað þessa umræðu hér til þess að koma með ómaklegar, ódrengilegar og ósannar árásir á formann Alþb. Staðreyndin er nefnilega sú, hv. þm., að það var aðeins eitt atriði sem bjargaði hagsmunamálum bænda í búvörusamningnum í tíð þessarar ríkisstjórnar og það var undirritun fjmrh. Þess vegna væri nær að hv. þm. Guðni Ágústsson, ef hann vill meta einhvers hagsmuni bænda, væri álíka drengur og forustumaður bænda, Haukur Halldórsson, og bera sannleikanum vitni í þessu máli. Nú er hæstv. landbrh. búinn að berja í borðið og af hverju er það? Vegna þess að það er akkúrat þessi flötur á búvörusamningnum sem hæstv. landbrh. er illa við, hv. þm. Hann fagnaði auðvitað árásum hv. þm. Guðna Ágústssonar, eins og hann gerði hér fyrr í umræðunum. Og það var stórkostlegt að hæstv. landbrh., maðurinn sem vildi rifta öllum búvörusamningnum í bandalagi með Friðriki Sophussyni og bað ríkislögmann að finna leiðir fyrir sig um það hvernig væri hægt að rifta búvörusamningnum, er svo að segja í andsvari við ræðu Guðna Ágústssonar að auðvitað sé það alveg rétt hjá þingmanninum að það hafi eiginlega verið hið versta mál að það voru ekki fleiri undirritanir hjá fjmrh. á búvörusamningnum.
    Hvílíkur tvískinnungur hjá hæstv. landbrh. Hvílíkur tvískinnungur. Hæstv. landbrh. Halldór Blöndal vildi eyðileggja búvörusamninginn enda töluðu margir frambjóðendur Sjálfstfl. í síðustu þingkosningum gegn búvörusamningnum. Hv. þm. Egill Jónsson talaði gegn búvörusamningnum. Hv. þm. Pálmi Jónsson talaði gegn búvörusamningnum. Ég veit ekki hvað hæstv. ráðherra Halldór Blöndal gerði í Norðurl. e. ( Landbrh.: Hvað gerði ég annars staðar?) Ja, ég fylgdist nú ekki svo mikið með kosningabaráttu hv. þm. þá. Það var áður en hann tók persónuleikabreytingu við það að setjast í ráðherrastól þannig að ég satt að segja hafði ekki mikinn áhuga á málflutningi þingmannsins eftir að hafa setið undir ræðum hans í stjórnarandstöðu í efri deild á kjörtímabilinu þar á undan.
    Nei, hv. þm. Guðni Ágústsson, við skulum frekar sameinast um það að skamma núv. ríkisstjórn fyrir það sem sannað er í greinargerð ríkislögmanns, að það var núv. ríkisstjórn sem ætlaði að framkvæma einhverja stærstu atlögu að bændastéttinni sem fyrirhuguð hefur verið og skipulögð hefur verið með því að

rifta búvörusamningnum með fjmrh. Friðrik Sophusson og frjálshyggjuliðið í Sjálfstfl. í fararbroddi og með aftanívagn, hæstv. landbrh., sem þá var reiðubúinn að ganga í þá för þó honum hafi kannski vaxið manndómur síðar á kjörtímabilinu til að rísa upp gegn ætlunarverkum þess liðs. En sem nýgræðingur í ráðherrastól 1991 var hann reiðubúinn að hanga aftan í frjálshyggjuvagninum í Sjálfstfl. og fá ríkislögmann til að gefa út úrskurð um það að búvörusamningurinn væri ónýtur.