Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 15:17:58 (3886)


[15:17]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það sýnir nú best hve hæstv. landbrh. telur sig hafa veikan málstað að verja að hann skuli telja sig þurfa að grípa til útúrsnúninga af því tagi sem fram komu í ræðu hans áðan. Það er staðreynd, hæstv. landbrh., enda hefur hæstv. fjmrh. staðfest það að ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin skrifaði ríkislögmanni til þess að óska eftir því hvort könnun færi fram á því hvort ekki væri hægt að rifta búvörusamningnum var sú ætlun ráðandi afla í ríkisstjórninni að rifta honum. Það þýðir ekkert fyrir aðstoðarmann landbrh. að sitja hér í hliðarherbergi og hrista hausinn yfir því eða fyrir landbrh. að berja í borðið. Þetta liggur bara fyrir og fjmrh. hefur ekkert verið að liggja á þessu. Það þurfti ekkert að kanna stöðu samningsins sérstaklega hjá ríkislögmanni. Samningurinn var allur með hefðbundnum hætti. Það láta engir menn kanna það hvort samningur er gildur nema þeir sem ætla að rifta honum, það vita nú allir bara af mannlegu atferli. Þeir sem eru ánægðir með samninginn og ætla sér að fara eftir honum fara ekki að hringja í lögfræðinga og kanna hvort þetta sé í lagi. Hver var að heimta að ónýta samninginn? Ekki bændasamtökin, ekki fyrrv. ríkisstjórn, ekki verkalýðshreyfingin. Það var bara einn aðili sem hafði heimtað það opinberlega og það var Alþfl. og frjálshyggjuliðið í Sjálfstfl. og þess vegna var könnunin gerð til að vita hvort það væri ekki hægt að framkvæma þann vilja frjálshyggjuliðsins í Sjálfstfl. og Alþfl. í nafni ríkisstjórnarinnar allrar að rifta búvörusamningnum.
    Útúrsnúningur hv. þm. úr orðum mínum um markaðsmál landbúnaðarins er auðvitað fullkomlega út í hött. Hæstv. landbrh. veit það væntanlega og ef hann veit það ekki þá er hann nú satt að segja ansi blár í þessu öllu saman blessaður að það er hægt að stunda útflutning á landbúnaðarafurðum frá Íslandi án útflutningsuppbóta.