Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 15:20:22 (3887)


[15:20]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Það kom tvennt fram hjá hv. þm. Annað var það að hann er enn þeirrar skoðunar að ekki sé rétt að taka upp útflutningsuppbætur á nýjan leik eins og ég skildi hv. þm. Ég vona að það sé ekki útúrsnúningur, hann leiðréttir þá.
    En það kom líka fram hjá hv. þm. að hann hafði mistalað sig þegar hann talaði um að ég hefði

ekki viljað standa við búvörusamninginn. Ég vildi standa við hann. Ég taldi nauðsynlegt að fyrir lægi skýrlega hvaða stöðu ég hefði gagnvart búvörusamningnum og hann væri kannaður sérstaklega. Hitt er svo annað mál og ekki gefst tími til þess hér í andsvari að fara yfir það með hv. þm. hvers vegna orðalagið er svo mismunandi í einstökum greinum samningsins. Það er auðvitað vegna þess að hann er háll í ýmsum atriðum og ástæðan fyrir því er sú að síðasta ríkisstjórn stóð ekki heil að samningnum. Og þegar hv. þm. er að tala um þá nafnana Jón Sigurðsson og Jón Baldvin Hannibalsson, hvernig þeir hafa verið eftir stjórnarskiptin 1991, þá er hann auðvitað að tala um reynslu sína af þeim fyrir kosningarnar og hvernig þeir töluðu þá um búvörusamninginn. Ég held að þetta liggi alveg ljóst fyrir.
    Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Eins og kom fram í seinni ræðu hv. þm. þá var hann ekki að skírskota til mín og það liggur alveg ljóst fyrir að þegar ég settist í sæti landbrh. gaf ég þá yfirlýsingu og hef staðið við hana að ég vilji standa við búvörusamninginn og tel hann gildan. Það er kjarni málsins.