Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 15:44:58 (3894)

[15:44]
     Árni Johnsen :
    Virðulegi forseti. Það er sérstætt í þessari umræðu um búvörusamninginn og framkvæmd búvörusamnings hvernig alþýðubandalagsmenn hafa vaðið fram með neyðaróp og gert þessa umræðu að ákalli um hjálp í komandi kosningabaráttu. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hrópaði hástöfum á hjálp frá hv. þm. Guðna Ágústssonar og annarra framsóknarmanna en í kjölfarið kemur hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og ræðst á Guðna Ágústsson og kallar hann umskipting. Það er mikið fjaðrafok í Alþb. um þessar mundir. Það hefur verið sérkennilegt í þessari umræðu að hlusta á formann Alþb. gefa út stórar yfirlýsingar sem þó eru löngu fjaraðar út því hv. þm. er uppurinn af digrum yfirlýsingum sínum og málefnafátækt hans er slík að hann hrópar í sífellu til fortíðarinnar en reynir að búa til nýja sögu öndvert við gang mála eins og kom hér fram í umræðunni fyrr.
    Í Sneglu-Halla þætti greinir frá því þar sem Þjóðólfur og Sneglu-Halli deila fyrir Haraldi Sigurðarsyni konungi. Haraldur Sigurðarson konungur var elskur að Íslendingum og gaf marga góða hluti til Íslands, m.a. klukku góða til Þingvalla. Í Sneglu-Halla þætti víkur að því þar þeir deila Halli og Þjóðólfur að Halli segir, með leyfi herra forseti:
    ,,Það hygg ég að Þorljótur héti faðir Þjóðólfs. Hann bjó í Svarfaðardal á Íslandi og var hann fátækur mjög en átti fjölda barna. En það er siður á Íslandi á haustum að bændur þinga til fátækra manna og var þá engi fyrri til nefndur en Þorljótur faðir Þjóðólfs og einn bóndi var svo stórlyndur að hann gaf honum sumargamlan kálf. Síðan sækir hann kálfinn og hafði á taum og var lykkja á enda taumsins. Og er hann kemur heim að túngarði sínum hefur hann kálfinn upp á garðinn og var furðulega hár garðurinn en þó var hærra fyrir innan því þar hafði verið grafið torf til garðsins. Síðan fer hann inn yfir garðinn en kálfurinn veltur út af garðinum. En lykkjan er á var taumsendanum brást um háls honum Þorljóti og kenndi hann ei niður fótum. Hékk nú sínumegin hvor og voru dauðir báðir er til var komið. Drógu börnin heim kálfinn og gerðu til matar og hygg ég að Þjóðólfur hefði óskert sinn hlut af honum.`` Sem sagt föðurbana sínum.
    Nú er því í mörgu þannig farið fyrir stöðu Alþb. og ekki síst í þessari umræðu um landbúnaðarmál að fátæktin er mikil og á það að því leytinu til við líkingu þessarar sögu. Það sem hefur kannski verið sérkennilegast í samskiptum Alþb. og Framsfl. í gegnum tíðina er að þessi tvö stjórnmálaöfl hafa keppst við að hengja hvort annað þegar færi hefur gefist. Þannig fór því einnig í málflutning hér fyrr í dag þegar formaður Alþb. hrópaði á hjálp til framsóknarmanna en hv. þm. Hjörleifur Guttormsson kallaði þá umskiptinga, a.m.k. hv. þm. Guðna Ágústsson og vil ég nú taka upp hanskann fyrir félaga minn á Suðurlandi.
    Það segir kannski líka svolítið um stöðu Alþb. og óróann þar sem kemur fram hér í dag, sem er mjög sérstæður í þessari umræðu, að formaður flokksins skuli í síbylju kalla á hjálp annarra flokka til að ráðast á Sjálfstfl. Kannski er eitt atriðið í þeirri taugaveiklun einmitt tengt hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, að það trufli eitthvað formann hans því Hjörleifi hefur nú tekist það á Austurlandi sem hvorki Sjálfstfl. né Framsfl. hefur tekist, þ.e. að knésetja Alþb.
    En mér þótti ástæða til að segja nokkur orð um þessa stöðu því mér fannst það sérkennilegt hvernig alþýðubandalagsmenn nota þessa umræðu til ákalls um hjálp og aftur hjálp í komandi kosningabaráttu.