Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 15:51:04 (3895)

[15:51]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Þessar umræður hafa farið mjög víða og verið mjög gagnlegar og mörg atriði komið fram sem vert er að athuga betur og íhuga. Ég vil fyrst segja það að ég hafði örlítið gaman af því áðan þegar hv. þm. Jón Helgason sagði að ég hefði kallað sunnlenska bændur framsóknarhunda. Má kannski rétt vera að maður hafi brugðið á glens. Þegar sagt er við mann að maður sé frjálshyggjudraugur þá vill svo til að í stuðla stendur framsóknarhundur. Veit ég nú ekki hvort er fallegra orð, að vera frjálshyggjudraugur eða framsóknarhundur. Má kannski segja að það sé svona svipaður munur á því eins og mér og hv. þm. Jóni Helgasyni. Verður nú hvor að una við sitt í þeim efnum. Þetta var nú í gamni sagt eins og allir vita. ( Gripið fram í: Ertu þá frjálshyggjudraugur?) Það vilja nú sumir segja að ég sé frjálshyggjudraugur, já. Það er nú svo og þykir mér ekki alls kostar illt að vera kenndur við frjálshyggju. Raunar af þeirri ætt sem ágætur draugur, Írafells-Móri, hefur lengi fylgt. Var svo í Engey er hann gleymdist í landi að sérstaklega var eftir honum róið.
    Ef maður víkur aftur að landbúnaðarumræðunni hér þá vil ég fyrst segja að það var alveg laukrétt hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni að það hafa verið mjög mismunandi áherslur í landbúnaðarmálum innan ýmissa flokka. Ég geri ráð fyrir að Alþfl. sé að því leyti heilsteyptur í þeim efnum að hann hefur haft mjög ólíka stefnu öðrum stjórnmálaflokkum í landbúnaðarmálum. Ég vil að það komi alveg skýrt

fram að það var af þeim sökum sem ég taldi að það mundi styrkja mig sem landbrh. að fá úr því skorið skýrlega hver væri staða búvörusamningsins. Auðvitað vegna þess að ég leit svo á að það væri lögformlegur samningur sem bæri að standa við. Vil ég nú víkja frá mér öllum aðdróttunum um önnur efni þó ég viti að menn grípi oft til ýmissa, menn bregða stundum á glens í þessum ræðustól hér og segja meira en þeir kannski til fullnustu meina.
    Ég vil líka segja að sú aðfinning hv. þm. er rétt að ekki hafi nægilega mikið fé verið veitt til landgræðslu og skógræktarstarfa miðað við búvörusamninginn, þó hann sé ekki afgerandi í þeim efnum á hvaða árabili þau framlög komi. Ég hef raunar oft sagt að það hafi valdið mér vonbrigðum að geta ekki knúið fram meiri fjárveitingar til þessara málaflokka, en skýringin er að sjálfsögðu sú mikla lægð sem efnahagsmálin hér á landi hafa verið í, sú barátta sem við höfum átt við ríkissjóðshallann. En á hinn bóginn þá beitti ég mér fyrir lagasetningu þess efnis, eins og ég hef áður sagt, að bændum yrði gefinn kostur á því að snúa sér að þessum störfum en halda beingreiðslunum þannig að þeirra framleiðslukvóti gæti nýst öðrum, sem hefði auðvitað komið sér vel þar sem hærra verð hefði fyrir hann fengist heldur en í útflutningi. En eftir því hefur ekki verið leitað að falla undir þetta ákvæði laganna. Það er aðeins einn bóndi sem hefur spurt mig um þau skilyrði sem séu fyrir slíku og að því leyti er ég ekki sannfærður um að hv. þm. Ragnar Arnalds hafi rétt fyrir sér þegar hann segir að sauðfjárbændum mundi sjálfkrafa fækka um 300--350 ef hægt yrði að fjölga þeim sem sinntu landgræðslu eða gróðurverndarstörfum. ( RA: Ekki sjálfkrafa.) Þannig að þá erum við auðvitað farin að tala um það hvort slíkum aðgerðum eigi að fylgja einhver skylda eða nauðung á þeim jörðum sem eru kannski á viðkvæmustu svæðunum. Ég hef alltaf sagt að ég vilji ekki fara þá leið heldur telji sjálfsagt að samningsleiðin sé farin og það verði bændum í sjálfsvald sett hvort þeir taki þennan kostinn. En það liggur alveg ljóst fyrir að ég er þess mjög hvetjandi að við reynum að fara leiðir eins og þessar og ég tel að þær séu færar og við eigum að leggja á þær meiri áherslur.
    Ég vil jafnframt ítreka það sem ég sagði áður hér í andsvari, að ég tel óhjákvæmilegt að finna leiðir til þess að auka svigrúmið í framleiðslunni fyrir sauðfjárbændur. Ég er á hinn bóginn ekki sammála þeim sem eru að leita eftir leiðum til að tryggja í sessi þá byggð sem er endilega nú á þessu ári. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að reyna að vinna að aukinni hagræðingu á sviði sauðfjárbúskaparins með því að finna einhverjar leiðir til að búin geti orðið stærri og það getum við ekki að óbreyttum horfum í útflutningi nema einhvers staðar leggist niður sauðfjárrækt. Þannig að við erum auðvitað að tala um að sama þróun verði í sauðfjárræktinni og mjólkurframleiðslunni að því leyti að búum fækki, þó ég geri mér auðvitað grein fyrir því eins og aðrir hv. þm. að sauðfjárbændur muni í vaxandi mæli leita eftir leiðum til að fjármagna eða standa undir heimilistekjum með öðrum hætti en búskapnum einum.
    Það er laukrétt að það er freistandi að reyna að leita að meira fjármagni en við nú höfum til atvinnuuppbyggingar í strjálbýli. Það er nú svo um ferðaþjónustuna að víða er fullbyggt, víða er of mikið af húsnæði þannig að varla verður lengra gengið í þeim efnum. Það hefur nokkuð verið um beiðnir um iðnaðaruppbyggingu en því miður kannski ekki á þeim svæðum sem höllustum fæti standa. Það er líka laukrétt hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að sums staðar hefur loðdýraræktin gengið upp. Það er auðvitað ekki víða, en sums staðar hefur það gerst. Það er líka rétt að sumum hefur tekist í bleikjueldi og jafnvel laxeldi að ná árangri sem er mjög eftirtektarverður og skapar vissan atvinnugrundvöll. Upp á þessum málum öllum verðum við að fitja nú eða hljótum við í landbrn. að fitja við bændasamtökin og ég vil reyna að leggja áherslu á að við komum eitthvað áleiðis áður en stofnfundur hinna nýju bændasamtaka verður haldinn þannig að upplýsingar og a.m.k. mínar skoðanir liggi skýrar fyrir þá en nú er í sambandi við þau mál sem bændur kjósa að leggja fyrir.
    Vegna þess sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði hér síðast þá er ég honum sammála um það að það er nauðsynlegt að gefa því meiri gaum og fá heimildir til þess að kaupa upp jarðir þar sem menn hafa neyðst til að selja kvóta sinn og koma með þeim hætti til móts við þá bændur sem vilja eða eiga kannski ekki heimangengt að geta sótt atvinnu sína í nærliggjandi staði. Við verðum að gefa þessu gaum og öðru því sem má verða til þess að treysta byggðina í sessi og þessi mál eru raunar í sérstakri skoðun nú í landbrn.
    Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að hafa um þetta fleiri orð. Ég tók þessa umræðu svo að hún væri fyrst og fremst um búvörusamninginn eins og hann liggur fyrir og hef ekki séð ástæðu til að nota tækifærið til að fara út í almennar landbúnaðarumræður.