Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 16:16:37 (3900)


[16:16]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Herra forseti. Það er nýlunda að maður þurfi að þrátta um form við hv. 4. þm. Austurl., sem er formfastur maður og mjög nákvæmur í athugunum sínum á pappírum og man þar allt bæði stórt og smátt.
    Því miður er hið fagra nafn Ólafs Ragnars Grímssonar ekki undir þessum bókunum. Hv. þm. kallar reyndar manninn alltaf hv. þm. Ólaf Grímsson, því hann notar ekki millinöfn fólks ef honum líkar illa við það, en hann er sjálfsagt tilbúinn að taka Ragnars nafnið með í kippuna núna.
    Ég tel mér fullkomlega heimilt að skýra frá staðreyndum og ég lít ekki svo á að hv. 4. þm. Austurl. geti með nokkrum rétti talið það einhverja sérstaka árás á Alþb. þó skýrt sé frá staðreyndum.