Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 16:22:30 (3903)

[16:22]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Sú skýrsla sem ég er með hér í höndum og tók tölurnar úr er unnin fyrir landbrn. af framkvæmdanefnd búvörusamninga sem í eiga sæti tveir fulltrúar Stéttarsambands bænda og fulltrúi fjmrn. og landbrn. Það er sjálfsagt að bera þessar tölur undir fulltrúa stéttarsambandsins hvort hér sé einhver villa í þessu þingskjali, en þingskjalið er alveg afgerandi um það sem ég sagði og það geta ekki verið tveir sannleikar í málinu, það er útilokað. Annað hvort hlýtur að vera rétt. Samkvæmt þessari skýrslu hér, sem er unnin m.a. af Stéttarsambandi bænda, hefur orðið aukning til skógræktar og landgræðslustarfa og má vera að hv. þm. vilji hafa einhvern framsóknarsannleika í þessu máli og þá er ekki við að gera.
    Hitt vil ég segja, að ef síðasta ríkisstjórn vildi skuldbinda ríkissjóð til að leggja 2 milljarða út samningstímann til skógræktarstarfa hvers vegna var þá ekki fastar kveðið að orði en svo: ,, . . . telja samningsaðilar eðlilegt að gera kröfu til þess að varið verði af hálfu ríkissjóðs``. Þetta er auðvitað ekki skuldbindandi. Þetta þýðir á mæltu máli að það er opnað fyrir það að viðræður takist milli samningsaðila um að verja auknu fé til landgræðslu og skógræktarstarfa. Þetta snýr að því. Menn geta auðvitað verið með missterk orð loðinnar merkingar, það fer kannski eftir því hvaðan menn eru af landinu. En það er alveg ljóst að þetta er ekki skuldbinding sem hægt er að festa sig í, því miður. Ég hef á hinn bóginn talið að það sé rétt að taka fastar á þessum málaflokki í sambandi við framlengingu búvörusamnings.