Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 16:26:36 (3905)


[16:26]
     Jón Helgason :
    Herra forseti. Hæstv. landbrh. sagði áðan í upphafi ræðu sinnar eða gaf í skyn, að það ætti ekki að taka alvarlega orð sem menn létu falla í hita umræðu og ég skal ekkert deila um það við hann, ég get a.m.k. fallist á það að auðvitað eru það málefnin sem skipta mestu máli en ekki það hvaða ummæli menn láta falla. Í þessari umræðu hafa sem betur fer ýmis málefni landbúnaðarins borið á góma sem ég vonast til að geti orðið jákvæð fyrir það starf sem allir hafa látið í ljós að þurfi að vinna, þ.e. að styrkja stöðu landbúnaðarins. Það sem mönnum hefur m.a. verið bent á í sambandi við úrræði framtíðarinnar er ferðaþjónusta, en ég vil taka undir þau varnaðarorð sem jafnframt hafa verið færð að ekki má einblína á einn möguleika og ganga þar allt of langt. Við hljótum að verða að fara með gát í fjárfestingu á því sviði. Það sem hins vegar þarf að gera á þeim vettvangi er að huga meira að betri nýtingu þeirrar fjárfestingar sem fyrir er og þá það að auka möguleika þeirra sem hingað kynnu að vilja koma til þess að eyða tímanum. Að finna sem flest sem laðar þá til að koma hingað. Náttúra landsins gerir það að sjálfsögðu og er þar stærsti þátturinn, en bæði er þá að kynna hana og gera gestum kleift að njóta þess besta sem hún hefur að bjóða og svo að sjálfsögðu ýmislegt fleira sem hægt er að gera þar til stuðnings.
    Það kom fram áðan í ræðu hæstv. ráðherra ýmislegt sem ég get tekið undir og eitt vil ég sérstaklega nefna. Það er sú áhersla sem hann lagði á að bændur stæðu saman um hagsmunamál sín. Þeir yrðu að standa saman um útflutningsmálin, það gengi ekki að þar væri hver að vinna í sínu horni og togast á jafnvel og skemma hver fyrir öðrum. Undir þetta vil ég taka en sérstaklega fagna því að hér finnst mér að hæstv. ráðherra hafi tekið alveg heljarstökk í stefnubreytingu. Það vakti athygli margra bænda þegar hæstv. ráðherra, ekki löngu eftir að hann tók við sínu embætti, lýsti yfir þeirri skoðun sinni að bændur ættu í auknum mæli að fara að slátra sjálfir heima hjá sér og koma afurðunum sjálfir á markað, hver að fara með sitt krof og reyna að bjóða það neytendum. Þetta leist mönnum alls ekki á og ég býst við að e.t.v. þetta viðhorf sem hæstv. ráðherra setti þá fram hafi átt töluverðan þátt í því að fundarmönnum á þeim fundi í gærkvöldi sem áður hefur verið rætt um fannst að stefna hæstv. ráðherra væri nokkuð frjálshyggjuleg. En ég vil fagna því að hæstv. ráðherra skuli hér vera búinn að læra af reynslunni.
    Það sem ég held þó að eftir standi fyrst og fremst í huga þeirra sem á fundinum voru sem ég nefndi áðan, fyrir utan þau orðaskipti sem ég hef nefnt, var sú niðurstaða sem kom í sambandi við framtíðina. Ágætir starfsmenn hæstv. ráðherra skýrðu þar frá gangi mála, m.a. GATT-samningnum. En þegar menn spurðu: Hvert er framhaldið? Hvernig verður staðan? Þá varð að gefa það svar: Ákvörðun liggur ekki fyrir, það veit enginn. Og ég vil taka undir með hv. 4. þm. Austurl., að þetta er eitthvert alvarlegasta mál íslensks landbúnaðar í dag og ákaflega alvarlegt að svo mikil eyða skuli vera þar í.
    Það var að sjálfsögðu ljóst strax og samningurinn hafði verið undirritaður af hæstv. utanrrh. að þarna þyrfti að ganga hreint til verks og taka ákvarðanir. Það gerðu Norðmenn t.d. Og þegar þeir lögðu fram þáltill. um staðfestingu á GATT-samningnum á Stórþinginu, mig minnir að það hafi verið 7. okt. í haust, þá lögðu þeir fram alla útreikninga sem þurftu að fylgja þessu máli. Hér er t.d. fylgiskjal frá norska utanríkisráðuneytinu til Stórþingsins um tolla og álögur.
    Það er eitt atriði í sambandi við það sem mig langar að spyrja hæstv. landbrh. um. Ég ætla ekki að reyna að bera fram fleiri spurningar en það snertir fyrsta liðinn í þeirri skrá um tolla sem Norðmenn voru að setja. Hann fjallar um lifandi dýr og fyrsti liðurinn þar eru hestar. Þar er tollurinn ákveðinn 44,25 norskar kr. á hvert kíló, lifandi vigt. Þetta mun þýða eitthvað á annað hundruð þúsund króna toll á íslenska hesta sem eru fluttir til Noregs. Áður voru þeir fluttir inn á undanþágu. Mér hefur verið tjáð að a.m.k. 200 íslenskir hestar hafi verið fluttir til Noregs á síðasta ári svo að hér er um töluvert stóran lið að ræða fyrir þá bændur sem höfðu þessa möguleika.
    Mig langar því að spyrja hæstv. landbrh. að því: Hvað gerði íslenska ríkisstjórnin til að koma í veg fyrir að þessi tollur væri lagður á og hvernig brugðust Norðmenn við þeirri málaleitan? Þetta er aðeins eitt dæmi af svo ótal mörgum um það hvað það skiptir miklu máli hvernig á málefnum Íslendinga er haldið í alþjóðasamningum. Ég ætla ekki að fara að telja upp fleiri en nefni þetta sem dæmi af því að þetta er fyrsti liðurinn í þeirri skrá sem norska ríkisstjórnin lagði fram í Stórþinginu til þess að ganga alveg frá þeim málum sem þurftu að fylgja fullgildingu GATT-samningsins.
    Við vitum að því miður var allt annar háttur á hér. Þegar þáltill. var lögð fram fylgdi þar ekki nokkur stafur. Það kom strax fram krafa um það, bæði hér á þinginu og í utanrmn., að ályktunin yrði ekki samþykkt nema þessi lagasetning gæti orðið samhliða. Síðan þegar Alþingi kemur til fundar eftir jólin þá kemur fram sú krafa í utanrmn. að málið skyldi afgreitt berstrípað og hvort sem um það næðist sátt eða ekki. Það var þá sem ég taldi að það væri betri kostur að leggja fram tillögu um viðbót sem síðan var flutt

af meiri hluta utanrmn. og samþykkt samhljóða á Alþingi, með hjásetu einhverra að vísu.
    Ég nefni þetta hér vegna þess að í þessari viðbót er hæstv. landbrh. algjörlega lagðar línurnar hvernig skal vinna að þessu. Honum er falin ábyrgð málsins og sagt alveg út frá hvaða forsendum hann eigi að vinna. Þegar hæstv. ráðherra er búinn að fá þetta í hendur svona, einróma samþykki Alþingis eða a.m.k. allra stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar, af hverju var þá ekki gengið í málið og þessi frumvörp lögð fram nú á þinginu? Ég get ekki séð að það hafi verið eftir neinu að bíða fyrir hæstv. landbrh. eftir svo afdráttarlausa samþykkt Alþingis.
    Hæstv. utanrrh. vildi gera lítið úr samþykkt Alþingis í þessu máli jafnvel þó að hann hefði samþykkt hana sjálfur og vitnaði til fortíðarinnar, til einhverrar nefndar, minnir mig, sem hefði verið falið að vinna að þessu máli á vegum ríkisstjórnarinnar. En ég tel að með samþykkt tillögunnar skipti fortíðin ekki máli. Þarna var mörkuð skýr stefna og eftir henni bar að sjálfsögðu hæstv. landbrh. og ríkisstjórninni að fara.
    Í sambandi við framkvæmd GATT-samninganna eru að sjálfsögðu svo margir óvissuþættir að það er ákaflega erfitt bæði fyrir samtök bænda og stjórnvöld að marka neina stefnu af viti fyrr en ákvörðun um framkvæmd samningsins liggur fyrir. Ég vil að sjálfsögðu þakka hæstv. landbrh. fyrir það boð sem hann gaf um að hann væri til viðræðu um stefnumörkun nú á næstu vikum. Að sjálfsögðu hlýtur slíkt boð að verða þegið. En grundvöllurinn sem á að byggja á getur ekki nema að mjög takmörkuðu leyti verið fyrir hendi meðan þetta veigamikla atriði er í algjörri óvissu.
    Ég vonast til þess samt sem áður að árangur verði og ég vænti þess að þær ábendingar sem fram hafa komið í þessari umræðu verði gagnlegar í þessu skyni og megi auðvelda að ná því markmiði, sem að sjálfsögðu allir eru sammála um sem tekið hafa þátt í þessari umræðu, að vinna að því að styrkja stöðu íslensks landbúnaðar.