Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 16:40:47 (3906)


[16:40]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil fyrst segja að það kom mér mjög mikið á óvart þegar hv. þm. sagði að í gærkvöldi hefði borið á góma þá stefnu sem stéttarsambandið er sammála mér um að rétt sé að taka upp, að athuga með hvaða hætti bændur geti selt framleiðslu sína heima á býlum sínum. Auðvitað höfum við alltaf gengið út frá því að farið yrði að lögum í því efni. Það er því mikill misskilningur hjá hv. þm. ef hann telur að það sé einhver einkaskoðun mín að það sé skynsamlegt og rétt að reyna að bæta stöðu bænda samkvæmt markaðnum, mikill misskilningur, og rétt að lesa ályktanir stéttarsambandsins í því sambandi.
    Fyrirspurn hans laut að því hvað við hefðum gert vegna þeirra greina sem hann las upp í Noregi um tollígildi á lifandi hesta sem fluttir yrðu til Noregs. Þá er um það að segja að landbrn. hefur haft samband við utanrrn. og raunar út af samsvarandi ákvæði hjá Svíum þar sem spurst er fyrir um það hvort það sé hugsað að þessi ákvæði taki til innflutnings á íslenskum hestum og auðvitað skírskotað til forsögunnar í því efni.
    Ég vil að lokum segja að það er svolítið erfitt að fara almennt í umræður um GATT-samningana eftir að maður hefur talað tvisvar og hefur ekki heimild til að tala hið þriðja sinnið. Ég hefði auðvitað tekið virkan þátt í þeim umræðum ef hv. þm. hefði um það beðið í sinni fyrri ræðu.