Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 16:42:42 (3907)


[16:42]
     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Fyrst um GATT-samningana. Ég hafði líka takmarkaðan tíma í minni fyrri ræðu og komst því ekki svo langt að víkja að þeim. Það er sjálfsagt eðlilegt að landbrn. snúi sér til utanrrn. í sambandi við erlend samskipti, þannig liggja leiðir. En því miður varð ég litlu nær um það hvað utanrrn. hefur gert í þessu máli og hvers við megum vænta.
    Að lokum aðeins um að það hafi komið ráðherra á óvart þetta með að bændur færu að slátra sjálfir hver út af fyrir sig. Ég held að hann hafi eitthvað misskilið orð mín því að ég sagði að ég byggist við að þessi skoðun sem hæstv. ráðherra mjög hélt á lofti fyrir nokkru síðan hefði e.t.v. átt einhvern þátt í þeim frjálshyggjustimpli sem hann fékk á sig á fyrrnefndum fundi en ekki að það hefði borið þar sérstaklega á góma. Ég held að það sé alveg augljóst að ef menn eiga að standa saman við sölu afurða þá gera þeir það ekki með því að slátra hver fyrir sig enda sjáum við held ég öll hversu dýrt það yrði ef hver bóndi ætti að fara að koma upp aðstöðu til þess að annast sína slátrun sjálfur miðað við þær kröfur sem gerðar eru.