Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 16:44:57 (3908)


[16:44]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
     Hæstv. forseti. Ég hef orðið var við það stundum að það er verið að reyna að snúa út úr því þegar ég er að tala um að það sé mjög æskilegt að bændur geti gert meira úr afurðum sínum en þeir hafa gert.

Það má auðvitað hugsa sér að það sé sláturhús á hverjum bæ ef menn endilega vilja. Það eru ekki mín orð. Það er hægt líka hægt að fara með fé til slátrunar og sækja síðan skrokkinn. Það er auðvitað hægt að gera þetta með ýmsum hætti. ( VS: Setja upp verslun.) Setja upp verslun meira að segja. Það var nú einu sinni verslun rétt við Lómatjörn ef ég man rétt, hv. þm. Þannig að það er nú hægt að hugsa sér ýmsar leiðir.
    En staðreyndin er sú að bændur margir hverjir hafa nóg af tíma sem þeir geta ekki nýtt til tekjuöflunar. Og þá er spurningin: Hvaða leiðir geta þeir farið til þess að svo verði? Hvernig geta þeir nýtt tímann? Fjöldi bænda reykir fisk, silung, fjöldi bænda reykir kjöt. Hvar vill hv. þm. draga mörkin? Það er því síður en svo að bændur komi hvergi nærri fiskverkun eða kjötverkun á býlum sínum og selji síðan. Ég held meira að segja að það sé töluvert um það í Vestur-Skaftafellssýslu og gæti orðið þingmanninum til leiðbeiningar, ef hann óskaði eftir, um að finna slík býli.
    Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þessar umræður lengri en það hefur ekki verið í mínum huga að ýta undir ólöglega heimaslátrun eða eitthvað þvílíkt, það er ekki rétt.