Skattgreiðslur af útflutningi hrossa

86. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 15:19:00 (3921)



[15:19]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Sem svar við 1. lið fyrirspurnarinnar hef ég upplýsingar um útflutning hrossa á árunum 1990--1994, en þá voru flutt út um það bil 10.700 hross. Árið 1990 voru þau 1.667, 1991 1.864, 1992 voru þau 1.995, árið 1993 2.449 og samkvæmt bráðabirgðatölum má gera ráð fyrir að á sl. ári hafi 2.700 hross verið flutt út. Langflest eru þau flutt út til Þýskalands eða um það bil 46% af heildartölunni. Fjórðungur fer til Svíþjóðar, 8% til Danmerkur og sama hlutfall til Noregs en afgangurinn, 14%, til annarra ríkja.
    Sem svar við 2. lið fyrirspurnarinnar skal það sagt að samkvæmt upplýsingum sem fyrir liggja nam heildarútflutningsverðmætið 870 millj. kr. samanlagt og skiptist þannig á árin: Árið 1990 voru þetta 153 millj. kr., 1991 167,5 millj., tæplega 170 millj. 1992, árið 1993 177,7 millj. og áætlað er að á sl. ári hafi útflutningsverðmætið verið um það bil 205 millj. kr.
    Þá er spurt í þriðja lagi: ,,Hverjar hafa skatttekjur ríkisins verið af þessum útflutningi?`` Því er til að svara að ríkissjóður hefur ekki beinar skatttekjur af þessum útflutningi að öðru leyti en því sem skilar sér í formi tekju- og eignarskatta sem og tryggingagjalds af þessari atvinnugrein. Þess vegna liggja ekki fyrir frekari upplýsingar um fjárhæðir þessara skattgreiðslna. Þetta er svarið sem hér liggur fyrir og má af því ráða að það er ekki hægt að svara fyrirspurninni með öðrum hætti en þeim að leita verður þá upplýsinga í framtölum þeirra sem flytja út hross, en þeir gætu haft tekjur af annarri starfsemi jafnhliða.
    Ég vona að þessar upplýsingar komi að tilætluðu gagni þótt ekki sé hægt að svara síðustu spurningunni betur en hér hefur verið gert.