Skattgreiðslur af útflutningi hrossa

86. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 15:21:52 (3922)



[15:21]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka fullkomlega undir það með hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að Alþingi ber að gera allt til þess að koma í veg fyrir skattsvik og það er náttúrlega sorglegt að hafa horft upp á vinnubrögð hæstv. fjmrh. á þessu tímabili. Tekjuliðir ríkissjóðs og það kerfi sem hann styðst við er eins og gatasigti eftir þessa ríkisstjórn og ef það eru 11--15 milljarðar í neðanjarðarhagkerfinu eins og fullyrt er þá er það alvarleg staða og er algerlega óásættanleg þannig að það er mikið verkefni fyrir næstu ríkisstjórn að taka á þessum málum. En hvað þessa grein varðar að taka sérstaklega hrossabændur þá eru þeir sjálfsagt brot af einhverjum öðrum atvinnugreinum og með misjöfnum hætti. Það mætti alveg eins taka heildsala, veitingamenn eða hvað það er og velta þeim hér uppi í þingsölum og segja: Þarna eru skattsvikararnir. Þeir eru í öllum röðum og öllum stéttum þessa þjóðfélags og því miður er það mikið mál að á því sé tekið, ég tek undir það með þingmanninum. Jafnframt finnst mér gagnvart íslenska hestinn þegar fjmrh. rekur hve miklar tekjur hann er farinn að gefa þá verður að hafa frumkvæði um það að taka tollamál gagnvart hestinum upp í viðræðum við ESB að fá þá niðurfellda.