Skattgreiðslur af útflutningi hrossa

86. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 15:23:33 (3923)



[15:23]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Athugasemd mín lýtur eingöngu að einum þætti í málflutningi hv. fyrirspyrjanda, það er gagnvart stofnverndarsjóðnum. Þar þótti mér gæta nokkurs misskilnings því að sú lækkun sem þingmaðurinn talaði um er að mínu mati, og ég held að ég fari þar örugglega rétt með, tilkomin vegna þess að í nýsamþykktum lögum um útflutning hrossa var ákveðið að lækka verulega gjaldið í stofnverndarsjóð. Stofnverndarsjóður átti orðið yfir 20 millj. í sjóði og er sjálfstæð stofnun og kemur í sjálfu sér skattheimtu af þessari grein ekkert við. En af ýmsum ástæðum þótti ekki ástæða til þess að innheimta í þann sjóð svo háar upphæðir áfram og þar er komin ástæðan fyrir því, það er einfaldlega miklu lægri prósenta, miklu lægra gjald rennur í stofnverndarsjóð en áður var.