Fasteignamat ríkisins

86. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 15:32:39 (3928)

[15:32]
     Fyrirspyrjandi (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Fyrir tveimur árum bar ég fram fyrirspurn um Fasteignamat ríkisins þar sem ég m.a. spurði hvort stofnunin yrði í meira mæli færð út á land. Þar gerði ég grein fyrir því með þessum hætti að hluta til og með leyfi forseta ætla ég að vitna í ummæli mín þá:
    ,,Á fjórðungsþingi 1991 var samþykkt að óska eftir því að starf við mat fasteigna á Vestfjörðum væri flutt til Vestfjarða en ekki til Reykjavíkur frá Borgarnesi eins og þá var ráðgert. Síðar óskaði hreppsnefnd Hólmavíkur eftir því að starfsemin yrði flutt þangað og bauð fram aðstoð við húsnæði og starfsaðstöðu. Fjórðungssambandið studdi þá tillögu og óskaði eftir liðsinni þingmanna við það og var það gert með bréfi þingmanna til Fasteignamats ríkisins. Þetta var síðan ítrekað í bréfi 20. febr. 1992 frá fjórðungssambandinu til Fasteignamatsins. Svar barst síðan frá stofnuninni 20. febr. 1992 eða fyrir ári og þar segir m.a., með leyfi forseta:
    Svo sem áður hefur verið rakið var sú ákvörðun að gera Vestfirði að sérstöku matsumdæmi tekin til þess að bæta þjónustu við Vestfirði. Þá var það og haft í huga að sérstök umdæmisskrifstofa yrði staðsett á Vestfjörðum til að skilyrði sköpuðust. Svo segir: Frá stofnun Fasteignamats ríkisins 1976 hefur það verið stefna stofnunarinnar að staðsetja umdæmisskrifstofurnar í þjónustumiðstöðvum þeirra byggða er þær þjóna.``
    Það er skemmst frá því að segja að það hefur ósköp lítið gerst síðan. Vestfirðingar hafa árlega verið að senda frá sér ályktanir og áskoranir um þetta mál og m.a. það að starfsmaður sá er sinnir þessum landshluta hefði aðsetur innan fjórðungsins. Og nýlega ítrekaði fjórðungssambandið þetta enn einu sinni með bréfi sem það hafði sent til Fasteignamatsins og einnig til okkar þingmanna og mér finnst því alveg full ástæða til þess að spyrja hvað þessu líði.
    Ég hlusta ekki á þau rök að það sé of dýrt að færa þjónustuna nær fólkinu sem á að nota hana. Þessi stofnun virðist samkvæmt því sem segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar um ríkisreikning 1993 hafa getað staðið undir allmiklum yfirvinnugreiðslum starfsmanna. Það hlýtur að vera mun hagkvæmara að fjölga heldur í starfsliði stofnunarinnar og sinna umdæmunum betur með því heldur en yfirvinna sé svo hátt hlutfall af launagreiðslum en hún mun vera kringum 38% af launagreiðslum.
    Ég hef einnig heyrt þær fréttir að nú eigi að færa þjónustu Fasteignamatsins við Vestfirðinga til Borgarness. Þess vegna hef ég leyft mér að spyrja hæstv. fjmrh. eftirfarandi spurninga á þskj. 356:
  ,,1. Verður þjónusta Fasteignamats ríkisins við Vestfirðinga flutt frá Reykjavík?
    2. Ef svo er, verður þá orðið við ítrekuðum óskum Vestfirðinga og starfsemin flutt til Vestfjarða?``