Krónutöluhækkun á laun

86. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 15:46:13 (3933)



[15:46]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég tel nauðsynlegt að samningar við opinbera starfsmenn séu skoðaðir í samhengi við aðra samninga sem gerðir eru á hverjum tíma. Nú vill svo til að langflestir samninganna eru lausir og hafa verið lausir frá síðustu áramótum. Ég tel að fyllilega komi til greina að fara ekki eingöngu þá leið að hækka laun almennt heldur megi skoða rækilega hvort ekki þurfi að koma sérstaklega til móts við þá sem lægst eru launaðir með því að hækka þá sérstaklega eins og hefur reyndar verið gert á undanförnum árum. Einkenni samninga á sl. fjórum árum hafa verið þau að eingreiðslur hafa komið fyrst og fremst til þeirra sem lægst hafa launin og síðan fjarað út þar til ákveðnu launamarki er náð.
    Samninganefnd ríkisins hafði að sjálfsögðu heimild til þess að gera slíka samninga og ekkert er því til fyrirstöðu að samninganefnd ríkisins fái heimild til þess að semja um krónutöluhækkanir á laun í stað prósentuhækkunar. Það verður að skoða allt eftir eðli máls á hverjum tíma. Samninganefndin hefur tiltölulega víðtækt umboð. Að undanförnu hefur mestur tími nefndarinnar farið í að ræða við kennarana en þar eru tvö félög sem hafa boðað verkfall sem hefst 17. þessa mánaðar ef samningar hafa ekki náðst. Ég vil taka sérstaklega fram að það er ekki krafa þessara félaga að um krónutöluhækkun sé að ræða. Þvert á móti eru kröfur þær að um almennar launahækkanir sé að ræða í hefðbundnum stíl.
    Ég get ekki svarað þessari spurningu öðruvísi en svo að ekkert er því til fyrirstöðu að samninganefnd ríkisins fái heimild til að semja um launahækkanir eins og um semst á almennum vinnumarkaði. Ég tel reyndar nauðsynlegt að báðir aðilar, bæði þeir sem starfa á almennum markaði eins og Vinnuveitendasambandið og Alþýðusambandið annars vegar, síðan ríkið og opinberir starfsmenn hins vegar fari að með svipuðum hætti í samningaviðræðum og ég hef reyndar haldið því fram að það sé afar óheppilegt þegar t.d. einstök félög opinberra starfsmanna boða verkfall og ákveða að efna til verkfalls jafnvel áður en samningaviðræður hefjast á hverjum tíma. En við erum að sjálfsögðu sveigjanlegir í samningaafstöðu okkar og verðum að vera það því að það þarf að taka tillit til þeirra kjarasamninga sem gerðir eru á hverjum tíma.