Krónutöluhækkun á laun

86. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 15:49:25 (3934)



[15:49]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér fannst uppsetning mála hjá hæstv. fjmrh. nokkuð skrýtin. Í svari hans fólst að ekki væri hægt að tala við kennara, ekki væri hægt að tala við opinbera starfsmenn fyrr en gengið hefði verið frá samningum á hinum almenna vinnumarkaði. Ég tel að þetta jafngildi yfirlýsingu um að hæstv. fjmrh. líti þannig á að opinberir starfsmenn og kennarar hafi ekki virkan samningsrétt vegna þess að það verði alltaf að bíða eftir því sem kemur út úr samningum á hinum almenna vinnumarkaði. Enda þótt ekki sé tími til þess að ræða málið í þessum stutta fyrirspurnatíma tel ég óhjákvæmilegt að láta koma fram að ég tók eftir yfirlýsingu ráðherrans og ég mótmæli henni. Ég tel hana hættulega og mjög hæpna, sérstaklega miðað við þá stöðu sem nú er uppi, t.d. í viðræðum við kennara.