Aðstaða fatlaðra nemenda í Menntaskólanum við Hamrahlíð

86. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 16:03:35 (3939)



[16:03]
     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin. Það kom fram í svari hans í fyrsta lagi að auðvitað er alvarlegt þegar fatlaðir nemendur sérstaklega lenda á hrakhólum með námsúrræði. Vonandi

leysist úr vandamálum þessara nemenda með þeim hætti sem hæstv. ráðherra rakti. Það þekkja allir sem þekkja eitthvað til lífs ungra einstaklinga að það getur ráðið miklu að fólk geti komist í nám sem hugur þess stendur til einmitt á þeim tíma sem það hentar og það getur orðið býsna örlagaríkt ef fólk hrökklast frá námi einmitt á þeim tíma sem viðkomandi er tilbúinn til þess andlega og efnalega, liggur mér að segja, að hefja nám.
    Í öðru lagi tel ég mikilvægt að það liggur fyrir skýrsla eða drög að skýrslu um stefnumótun varðandi aðstöðu líkamlega fatlaðra nemenda í framhaldsskólum og ég fer fram á það við hæstv. menntmrh. að hv. menntmn. fái þá skýrslu þannig að hægt sé að hafa hana til hliðsjónar þegar hv. menntmn. fjallar um frv. til laga um framhaldsskóla sem liggur fyrir til meðferðar í þeirri nefnd. Ég vænti þess að í þeirri skýrslu sé að einhverju leyti tekið á sérkennsluþörfum í framhaldsskólum líka. Þá er ég t.d. að tala um aðstoð við lestur og fleira þess háttar þar sem þarf oft sérstakan stuðning, m.a. vegna lesblindu sem snertir 2--3% nemenda í hverjum árgangi og þarf að sinna alveg sérstaklega.
    Mér þætti vænt um að í framhaldi af umræðunni yrði það tryggt að þessi skýrsla kæmi í hendur menntmn. þannig að hv. menntmn. gæti haft hana til hliðsjónar við frekari meðferð framhaldsskólafrv.