Samstarf Alþýðuskólans á Eiðum og Menntaskólans á Egilsstöðum

86. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 16:16:06 (3945)


[16:16]
     Fyrirspyrjandi (Hermann Níelsson) :
    Virðulegi forseti. Ég fylgi hér úr hlaði fsp. til hæstv. menntmrh. um sameiningu og samstarf Alþýðuskólans á Eiðum og Menntaskólans á Egilsstöðum.
    Ríkisstjórnin hefur boðað að framlög til menntamála muni hafa forgang á næstu árum. Það er öllum ljóst að skilvirkt öflugt menntakerfi er lykillinn að framtíð þjóðarinnar.
    Alþýðuskólinn á Eiðum hefur lengi verið ein helsta menntastofnun á Austurlandi. Bændaskóli var

þar stofnaður 1883 og Alþýðuskóli 1919. Eiðaskóli er nú rekinn sem grunnskóli á kostnað ríkisins en frá 1971 hafa verið starfandi við skólann framhaldsdeildir sem ná nú yfir fjórar fyrstu annirnar. Skólinn hefur yfirleitt verið fullsetinn enda eftirsóttur af nemendum sem til þekkja og grunnskólanemendur hafa haldið áfram námi sínu við skólann í framhaldsdeildum.
    Með yfirtöku sveitarfélaganna á grunnskólanum og með tilkomu 10. bekkjar í smærri skólum í heimabyggð hefur samkeppnisstaða Alþýðuskólans versnað og er hann nú aðeins hálfsetinn og aðstaða því hálfnýtt. Mikill áhugi er fyrir sameiningu Eiðaskóla og Menntaskólans á Egilsstöðum meðal forsvarsmanna, kennara og nemenda en eins og allir vita eru örfáir kílómetrar þarna á milli eða um 10 mínútna akstur. Því spyr ég hæstv. menntmrh.:
  ,,1. Hvert er hlutverk þeirrar nefndar sem ráðherra skipaði nýverið til þess að vinna að samstarfi framhaldsdeildanna á Eiðum og Menntaskólans á Egilsstöðum?
    2. Hver er afstaða ráðherra til samnýtingar á kennsluhúsnæði og kennslu?
    3. Hvernig eru samskiptin hugsuð með tilliti til kennslu í áföngum, kjarnagreinum og valgreinum?
    4. Hvenær mun ákvörðun um samstarf skólanna liggja fyrir með tilliti til kennslu í haust?
    5. Hver verður staða Alþýðuskólans á Eiðum ef ekki verður af því samstarfi sem nú er í undirbúningi?``