Embættisfærsla umhverfisráðherra

87. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 17:02:08 (3956)

[17:02]
     Árni M. Mathiesen :
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu furðulegasta tillaga sem ég hef séð á Alþingi fram til þessa. Tillagan fjallar um, að því er virðist samkvæmt texta og greinargerð, þrjú atriði. Um flutning veiðistjóraembættisins til Akureyrar, um undirbúning þeirrar ákvörðunar og samskipti við starfsmenn og í þriðja lagi um meinta persónulega árekstra umhvrh. og ótiltekinna starfsmanna.
    Í tillögunni og í greinargerðinni og fylgiskjölunum rekst hvað á annars horn. Flutningsmenn fullyrða að þeir séu ekki á móti því að flytja embætti veiðistjóra til Akureyrar. En hvers vegna láta þeir þá fylgja fylgiskjal fyrrum veiðistjóra, dr. Páls Hersteinssonar, um það hversu óæskilegt það sé að flytja embættið til Akureyrar? Flutningsmenn efast um réttmæti og lagalegan grundvöll flutningsins af hálfu ráðherrans og það hvernig að honum er staðið og samskipti við starfsmenn embættisins. Hvernig stendur þá á því að tillögunni fylgir fylgiskjal frá laganefnd Bandalags háskólamanna hjá ríkinu þar sem talið er að ráðherrann hafi lagaheimild til að flytja stofnunina þangað og það þurfi ekki að leita sérstakrar heimildar hjá Alþingi eða öðrum til þess? Hvernig stendur þá á því ef samskipti hæstv. umhvrh. og starfsmannanna hafa verið svona óviðunandi að þeir starfsmenn sem ekki vildu flytja hafa allir fengið störf við sitt hæfi á því

svæði þar sem þeir kjósa að búa? Í leiðinni stendur til að efla svipaða starfsemi og um er að ræða hjá Háskóla Íslands og hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Það sem eftir stendur er það sem lesa má milli línanna, það sem ýjað er að. Í greinargerðinni segir:
    ,,Ástæða er einnig til þess að ætla að þessi ákvörðun eigi rætur í persónulegum árekstri ráðherra við starfsmenn embættisins á óskyldum vettvangi.``
    Þessari fullyrðingu fylgir ekki greinargerð. Það eru einungis greinargerðir sem ganga þvert á það sem tillögumenn leggja til og gera grein fyrir í sínu máli. Þess vegna læðist að manni sá grunur, og ég vona innilega, hæstv. forseti, að sá grunur sé ekki á rökum reistur, að ástæða tillöguflutningsins eigi, svo ég noti orð úr greinargerðinni, rætur í persónulegum árekstri ráðherra og viðkomandi hv. þm.