Embættisfærsla umhverfisráðherra

87. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 17:10:44 (3962)


[17:10]

     Gísli S. Einarsson :
    Frú forseti. Í upphafi vil ég taka fram að mér finnst úrskurður forseta sanngjarn og hárréttur um tíma til málflutnings í þessu máli.
    Ég verð í upphafi míns máls að lýsa sérstakri vandlætingu á þeirri þáltill. sem hér er til umræðu. Mér finnst hún til vanvirðu fyrir þá þingmenn sem að henni standa, sérstaklega eftir að fyrir liggur að gengið hefur verið frá málum þeirra starfsmanna sem hér er verið að fjalla um og það í fullri sátt við þá og samkvæmt lögum.
    Vegna þessarar ályktunar hefur sannarlega verið komið í veg fyrir flutning Landmælinga ríkisins til Vesturlands þar sem ráðherra er ekki unnt samkvæmt mati virtustu lögmanna að framkvæma sambærilega stjórnsýsluaðgerð með slíka tillögu yfir sér. Ég hef leitað eftir því sjálfur persónulega við flesta eða alla flutningsmenn tillögunnar, ekki hvað síst fyrsta flm. að hann dragi tillöguna til baka vegna þess að ágreiningsmál varðandi starfsmenn væri leyst. Flest svör flutningsmanna hafa verið bundin við hvað fyrsti flm. vildi gera. Í símtali neitaði hann að draga tillöguna til baka og falla frá flutningi. Afleiðingarnar eru að ekki virðist mögulegt að koma því máli fram við núverandi aðstæður að Landmælingar ríkisins flytji til Vesturlands. Það er undarlegt að standa frammi fyrir því að þeir sem helst koma í veg fyrir flutnings starfa út á land eru landsbyggðarþingmenn. Og nú hluti þeirra með hv. þm. Hjörleif Guttormsson í fararbroddi. Ég held að það sé kannski rétt með öfugum formerkjum að óska þeim til hamingju með félagsskapinn.
    Ástæðan fyrir því að ekki er unnt að flytja Landmælingar er að finna í greinargerð tillögunnar þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Fyrir utan þann miska sem viðkomandi starfsmenn og aðstandendur þeirra hafa orðið að þola er hætt við að vinnubrögð ráðherra í þessu máli vinni gegn almennum áformum um flutning ríkisstofnana. Hið sama má einnig segja um framkomu ráðherrans gagnvart starfsmönnum Landmælinga ríkisins og Skipulags ríkisins í tengslum við athugun á flutningi þessara stofnana á fyrri hluta árs 1994.``
    Þar er komin ástæðan fyrir því að ekki er hægt að halda áfram með sambærilega stjórnsýsluaðgerð. Án þess, virðulegur forseti, að fara mikið lengra í málflutningi varðandi þá slóð vandamála sem Akurnesingar, sem hlut eiga að máli, hafa lent í í kjölfar þessa þá legg ég hreinlega til að þessi ályktun verði felld þegar í fyrstu atkvæðagreiðslu sem óhæf og órökstudd aðför að hæstv. umhvrh.
    Ég ítreka það enn, virðulegur forseti, að mér finnst hörmuleg að enn og aftur skuli landsbyggðarþingmenn eins og hv. þm. Jón Helgason eiga svo mikinn þátt í að koma í veg fyrir að af flutningi stofnana geti orðið að ræða til þeirra byggðarlaga sem hvað verst hafa farið út úr atvinnusamdrætti undanfarandi ára. Ég sé ekki að það sé ástæða til að rekja málið frekar en ég lýsi fyrst og fremst vandlætingu á vanathuguðu máli sem hv. flutningsmenn tillögunnar standa að. Mér þykir miður, frú forseti, að þegar leitað er eftir því í bróðerni við þessa aðila hvernig mætti leysa málið, hvernig mætti draga þessa tillögu til baka þá var því hafnað.