Embættisfærsla umhverfisráðherra

87. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 17:32:05 (3968)


[17:31]
     Flm. (Hjörleifur Guttomsson) :
    Virðulegur forseti. Ástæða flutnings þessarar tillögu er sú að sá sem er 1. flm. hennar og ég held að það gildi um aðra flm., alveg sérstaklega geri ég ráð fyrir að það eigi við um þá í röðum flm. sem störfuðu á síðasta þingi í umhvn. Alþingis og urðu þar vitni að þeim vinnubrögðum sem eru ástæða tillöguflutningsins og málsgögnum sem komu fram þar að lútandi frá þolendum sem í hlut áttu og báru vitni fyrir þingnefndinni --- ég vil segja tæpitungulaust --- en ég hef ekki séð ástæðu til þess við þessa umræðu að rekja það í einstökum atriðum vegna þess að till. fjallar um rannsókn. Ekki um dómsuppkvaðningu úr ræðustóli Alþingis. Ég er satt að segja afar undrandi á því með hvaða hætti hæstv. umhvrh. bregst við þessum tillöguflutningi. Það mátti heyra af hæstv. ráðherra að hann stæði traustum fótum í málinu. Það mátti skilja það af hans máli. En hann rökstuddi það ekki og hann reyndi ekki í nokkurri grein að hrekja þær ávirðingar sem raktar eru og fram hafa komið í þessu máli og lesa má m.a. í þeim dagsetningum sem tengjast ákvörðun hans og talar kannski hvað skýrustu dæmi með hvaða hætti hér var haldið á máli. Það var ekki reynt. Hér reyndi hæstv. umhvrh. aðeins að slá um sig með stóryrðum, með fullyrðingum í garð

flm. en hann notaði ekkert af tíma sínum til þess að reyna að hnekkja því sem hér kemur fram og sem skiptir meginmáli, hvernig hann virðist hafa staðið að þessari ákvarðanatöku og gengið þar þvert gegn almennum og eðlilegum reglum, óskráðum sem skráðum. Það er alvara málsins.
    Við flm. þessa máls erum með þessum tillöguflutningi að bregðast við ósæmilegum vinnubrögðum að okkar mati í þessu máli, það á a.m.k. við um mig sem 1. flm. till. Mjög alvarlegum vinnubrögðum af manni sem hefur vald sem ráðherra í Stjórnarráði Íslands og misbeitir því valdi með þeim hætti sem liggur fyrir. Ég vil aðeins nefna örfá atriði sem þessu tengjast til þess að menn átti sig á hvernig þarna virðist hafa verið haldið á málum. Ef hæstv. ráðherra telur sig hafa gengið eðlilega fram og hafa ekki neitt að óttast í sambandi við athugun málsins ætti hann auðvitað að vera sá fyrsti sem og aðrir þingmenn Alþfl. að fá þessa till. samþykkta og fá þá rannsókn framkvæmda sem till. gerir ráð fyrir. Hvað hafa hv. þm. að óttast? Hvað hafa þeir að óttast í því efni? Er ekki rétt að slík athugun máls fari fram?
    Af hálfu hæstv. umhvrh. er tekin ákvörðun um flutning stofnunarinnar, hún liggur fyrir 6. jan. 1994. Á þeim tíma hefur enginn starfsmaður nefnds embættis svo mikið sem grun um að þessi ákvörðun standi til af hálfu hæstv. ráðherra.
    Hæstv. ráðherra hafði átt í útistöðum við tiltekinn starfsmann embættisins á óskyldum vettvangi í desembermánuði 1993. Hann hafði átt samtal við veiðistjóra svo seint sem á Þorláksmessu 1993 vegna þessa áreksturs með ákveðnar kröfur uppi. Það er það sem að er látið liggja í greinargerð en nefnir ekki einu orði þá eða fyrr við forstöðumann embættisins að hann hafi í huga að leggja til flutning þess. Síðan er reynt að láta að því liggja af hæstv. ráðherra að fram hafi farið efnisleg athugun á þessu máli, efnisleg athugun á flutningi embættisins yfir hátíðarnar 1993. Fram að þrettándanum og þar hafi vísir menn með fjölmargar lærdómsgráður í ráðuneyti ráðherrans verið að verki.
    Hæstv. ráðherra er að skjóta sér á bak við embættismenn vegna síns gjörnings. (Gripið fram í.) Nei, ekki sjálfan sig, á bak við embættismenn og reynir að gera embættismenn ráðuneytisins ábyrga. Það verður auðvitað eitt af verkefnum þeirrar nefndar sem till. gerir ráð fyrir að fara yfir slíka málavöxtu. Fyrir Alþingi er það sem máli skiptir að skapa eðlilegar leikreglur í sambandi við svo mikilvæg mál sem hér um ræðir og gæta þess að ekki sé traðkað á eðlilegum rétti einstaklinga, að eðlilegar reglur séu virtar, hvað þá að ekki sé gengið á svig við lagafyrirmæli. Það eru þessi óhæfilegu vinnubrögð sem ég veit að voru viðhöfð í þessu máli vegna þess að ég tel að það liggi fyrir þannig að ekki þurfi um að véla út af fyrir sig að þetta eru ekki eðlileg vinnubrögð. Þess vegna er till. flutt.
    Hv. þm, þetta mál á ekki neitt skylt við spurninguna um það að flytja stjórnsýsluverkefni eða stofnanir út fyrir höfuðstaðinn. Ekki nokkurn skapaðan hlut. Það er algjörlega óskylt mál og það er skýrt tekið fram af okkur flm. En halda menn að hægt sé að láta tilgang helga meðalið í þessu máli frekar en öðru? Mér finnst mjög varhugavert að láta liggja að slíku, vegna þess að það sé gott málefni að dreifa verkefnum í stjórnsýslunni sé mönnum heimilt að ganga fram með þeim hætti sem gert var í þessu efni. Það fær ekki staðist.
    Ég er mjög undrandi á því að þingmenn, sem ættu að vita hvernig málið er vaxið, þingmenn eins og hv. 3. þm. Reykn. sem talaði fyrr í umræðunni, Árni M. Mathiesen, eru að láta að því liggja að eitthvað annað búi að baki og eru með fimleikum að gefa í skyn að málið snúist um eitthvað annað en það gerir með vísun í fylgiskjöl. Ég held að hann sé þar á mjög hálum ís. Af hálfu okkar er ekki verið að birta hér nema hluta af svari veiðistjóra varðandi flutning embættisins. Löng greinargerð sem veiðistjóri skilar og vann á stuttum tíma, 10. janúar 1994, er ekki birt hér nema að litlum hluta til vegna þess að við vildum ekki vera að draga inn í málið það sem snýr að hinni faglegu hlið þó að það sé ekki fellt út úr einstökum setningum vegna þess að það er ósaknæmt þó að það fljóti með en meginefni í greinargerð veiðistjóra er um áhrif á starfsmenn og embættis hans í þessu efni.
    Það má segja að það komi vel á vondan, hæstv. umhvrh., þegar hann fer í ræðustól á Alþingi að hæla sérstaklega veiðistjóra. Að fara að hafa uppi um hann sérstaka lofgjörð sem gæti orðið löng ef menn vilja það við hafa til þess að skapa skjól fyrir sjálfan sig í þessu máli. Hæstv. ráðherra hefði átt að vera á fundi umhvn. Alþingis þar sem veiðistjóri kom og greindi frá málavöxtum frá sínum bæjardyrum á fundi nefndarinnar sem var bókaður sérstaklega af ritara nefndarinnar þann 15. apríl 1994. Sú greinagerð verður auðvitað útbær fyrir rannsóknarnefnd, sem þyrfti að fara yfir þetta mál, og þá sjá menn hvernig málin lágu á þeim tíma sem hér er um ræðir.
    Það var einmitt þannig að það var ekki aðeins um það að ræða að hæstv. ráðherra tók nefnda ákvörðun án minnsta samráðs eða upplýsinga til starfsmanna embættisins heldur ætlaði hann jafnframt að knýja fram lagabreytingu til að fá gjörning sinn innsiglaðan með því að fá breytt stjórnarfrv. sem lá fyrir síðasta Alþingi. Þeirri hugmynd hæstv. ráðherra var sem betur fer hrundið en sýnir vinnubrögð sem eru að mínu mati mjög óvenjuleg þegar um stjórnarmálefni er að ræða, og þegar þau eru tengd saman við annan gjörning í þessu máli verða þau ekki sérstaklega aðlaðandi.
    Ég tel afar mikilvægt, virðulegur forseti, að þess sé gætt við embættisfærslu að farið sé að eðlilegum leikreglum. Ég tel það ekki goðgá að nýta ákvæði íslensku stjórnarskrárinnar, sem hér er vísað til, til að reyna að tryggja að farið sé að eðlilegum leikreglum í slíku máli. Það er ábyrgð að fara með vald, það er mikil ábyrgð sem ráðherra ber og þess þarf að gæta af Alþingi Íslendinga að ekki sé um misbeitingu að ræða. Þess vegna skírskotum við til 39. gr. stjórnarskrárinnar sem hljóðar þannig, hún hefur ekki

verið höfð uppi fyrr, virðulegur forseti, með þínu leyfi:
    ,,Alþingi getur skipað nefndir alþingismanna til að rannsaka mikilvæg mál, er almenning varða. Alþingi getur veitt nefndum þessum rétt til að heimta skýrslur, munnlegar og bréflegar, bæði af embættismönnum og einstökum mönnum.`` Það er einmitt þessi grunnur, sem gert er ráð fyrir að verði lagður fyrir störfum þeirrar nefndar, sem hér á hlut að og hér er gerð tillaga um. Hvað óttast hæstv. umhvrh. í því efni? Hvað hefur hæstv. ráðherra að óttast í því efni? Hvað hefur þingflokkur Alþfl. að óttast að slík athugun fari fram?
    Ég hef þegar vikið að því, virðulegur forseti, hversu fráleitt það er að ætla að fara að blanda öðrum ákvörðunum hæstv. ráðherra saman við þetta efni og hversu einkennilegt það er að gera kröfu til flm. þessa máls að draga tillögu af þessum toga til baka vegna þess að hæstv. ráðherra beri það fyrir sig í sambandi við aðrar embættisathafnir að þessi tillaga liggur hér fyrir þinginu. Jafnvel þó að ráðherrann teldi sig hafa ástæðu fyrir slíku er með öllu óeðlilegt að falla frá því máli sem hér liggur fyrir vegna þess að málið er almenns eðlis og skiptir miklu þegar um er að ræða mál af þessum toga.
    Ég vil, virðulegur forseti, ítreka að það er rík ástæða til þess fyrir Alþingi að sjá til þess að mótaðar verði almennar reglur, sem virða beri í sambandi við ákvörðun Stjórnarráðsins eða stjórnsýslunnar, að því er snertir mál af þessum toga til þess að tryggja að vel sé staðið að máli, að hugsað sé fram í tímann í slíkum efnum og ég vísa til þess sem Norðmenn hafa gert sem hafa staðið að flutningi stofnana og ég vísaði til þar sem mál eru tryggilega frágengin áður en til framkvæmda kemur og áður en endanlegar ákvarðanir liggja fyrir.
    Ég vænti að þessi tillaga og flutningur hennar verði til þess að slíkar reglur verði mótaðar og Alþingi eigi þar hlut að máli. Ég veit að þessi tillöguflutningur hefur þegar, virðulegi forseti, haft þau áhrif að hæstv. umhvrh. hefur reynt að klóra yfir verk sín gagnvart þeim starfsmönnum sem eiga í hlut enda fóru hjólin að snúast í þeim efnum eftir að þessi tillaga kom fram. Það breytir hins vegar ekki nokkru um það að ástæða er til að rannsókn fari fram á málafylgju ráðherrans því að söm er gerðin hvað sem líður viðbrögðum eftir að ljóst var að málið yrð flutt inn á vettvang þingsins.