Embættisfærsla umhverfisráðherra

87. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 17:49:01 (3969)


[17:49]
     Guðjón Guðmundsson :
    Hæstv. forseti. Ég er út af fyrir sig sammála hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni um það að tillagan ætti ekki að þurfa að hafa nein áhrif á flutning annarra ríkisstofnana en það er nú samt svo að umhvrh. hefur notað þessa tillögu til þess að fresta flutningi Landmælinga Íslands og vitnað til lögfræðings þar að lútandi.
    En ástæðan til þess að ég kem upp aftur er sú að ég fékk ekki svar við þeirri spurningu, sem ég lagði fram í lok ræðu minnar áðan, og ég óska eindregið eftir að umhvrh. svari þeirri spurningu. Ég ætla að fá að endurtaka hana:
    Er ráðherra tilbúinn að lýsa því yfir hér og nú að Landmælingar Íslands verði fluttar til Akraness ef þessi tillaga verður felld eða hún dregin til baka?