Menntun á sviði sjávarútvegs og matvælaiðnaðar

87. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 18:21:03 (3977)


[18:21]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég held að mér dugi andsvar. Ég verð að segja að mér þótti þetta svolítið skrítin ræða hjá hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur. Það er í sjálfu sér ekkert furðulegt við það þótt ýmsir þingmenn Sjálfstfl. leggi fram tillögu sem þessa. Hún var lögð fram á síðasta þingi og varð ekki afgreidd og þá var málið svo sem skemmra komið í menntastefnunefndinni heldur en það er nú. Í sjálfu sér þykir mér heldur ekkert athugavert við það þótt tillagan hafi verið endurflutt og það var gert snemma á þessu þingi, áður en talað var fyrir frv. til framhaldsskólalaga. Ég sé ekkert athugavert við það að einstakir þingmenn, þótt í flokki ráðherra séu, komi á framfæri sérstökum áhugamálum sínum og enn þá síður er það athugavert þegar þeirra málflutningur fer saman við þær tillögur eða það frv. sem ráðherra viðkomandi málaflokks og samflokksmaður þeirra hefur flutt. Ég ítreka því að ég sé alls ekkert athugavert við þennan tillöguflutning.
    Það er svo sérstakt umræðuefni hvað starfsnám kostar umfram bóknám. Það höfum við rætt í þinginu og ég hef kveðið alveg skýrt að með skoðanir mínar á því og við gerum okkur alveg ljósa grein fyrir því að starfsnám er dýrara en bóknám og breytir þar engu að við leggjum höfuðáherslu á aukið verknám í okkar málflutningi og tillöguflutningi.