Vegasamband milli Austurlands og Norðurlands

87. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 19:02:22 (3984)


[19:02]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er hárrétt að við erum hér að fjalla um álitamál því að við höfum ekki beinar rannsóknir og sjálfsagt er ég komin út á of hálan ís að deila við svo reyndan fjalla- og ferðamann eins og hv. flm. um þessi atriði. En ég get tekið undir með hv. þm. að veðurhæðin og þar með hætta á skafrenningi væri væntanlega meiri á fjöllunum en á heiðunum.
    Nú er það svo að það er kannski ekki það sem skiptir öllu máli og varðandi hvar snjór sest á veginn. Það er mín tilfinning að það yrði snjóþyngra og erfiðara um vik sérstaklega þó Reykjaheiðina. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki eins nákvæmar upplýsingar um Öxarfjarðarheiðina en hef þó grun um að hún gæti orðið ærið snjóþung.
    En eins og ég sagði ég held að það sé kannski verið að blása það svolítið upp og það er sérstök íþrótt sjálfstæðismanna, bæði á Norðurl. e. og Austurlandi, að blása upp einhvern mikinn ágreining um þessi atriði en ég held að við séum sammála um það að báðar leiðirnar verður að fara og ég virði alveg þetta sjónarmið. Og ég var ekkert að deila á það að þingmenn Austurlandskjördæmis hefðu lagt áherslu á suðurleiðina. Það er alveg rétt að það markaði nokkuð afstöðu þingmanna Norðurl. e. að fyrst var kláruð leiðin vestur um áður en við töldum okkur geta farið þarna. En ég bendi á að við erum samhliða að byrja að fikra okkur áfram með að byggja upp veginn um ströndina um Norður-Þingeyjarsýslu.