Vegasamband milli Austurlands og Norðurlands

87. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 19:06:06 (3986)


[19:06]
     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Aðeins örstutt innlegg í þessa umræðu sem er að mörgu leyti fróðleg. Það er af

því að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson vék aðeins að því að menn hugsuðu meira til þess að koma veginum í suður eins og hann orðaði það, við Norðlendingar, sem að nokkru leyti er rétt. Þá vil ég að það komi skýrt fram vegna þess að ég átti sæti í þeirri nefnd sem vann að undirbúningi og gerð síðustu langtímaáætlunar. Þar var margsinnis vikið að þessari vegtengingu yfir öræfin fyrir austan og ég einmitt kom með hugmynd þegar var verið að vinna þessa langtímaáætlun að þá þegar mundi Vegagerð ríkisins beita sér fyrir því að þingmenn Austurlands og Norðurlands og mér er það minnisstætt, einmitt bæði Norðurlands eystra og vestra yrðu kallaðir saman til þess að ræða um þessa framkvæmd. Ég er því mikill stuðningsmaður þess að þetta vegasamband komist á og tel í raun og veru að við höfum ekki lokið hringveginum fyrr en þessi vegtenging er að baki.
    Ég verð einnig að segja það til þess að koma því hér að í þessa umræðu að samgn. þingsins fór yfir þetta svæði nú sl. sumar í leiðsögn umdæmisverkfræðings Vegagerðarinnar og fleiri frá Vegagerðinni. Það var ákaflega fróðleg ferð og forseti sem hér er og stýrir þessum fundi var einnig með í þessari ferð og við urðum margs fróðari eftir að hafa ekið þennan veg og hlustað á leiðsögn manna um væntanlega veglínu. Ég vil því að það komi skýrt fram að sú vegtenging sem hér er verið að tala um á held ég stuðning, ég hef trú á því, allra þingmanna Norðurlands eystra og vestra. Ég hef ekki trú á öðru og miklu fleiri reyndar. Og þess vegna vil ég bara ítreka það enn og aftur að við hugsum til þess og ég held að það sé líka mikill ávinningur fyrir öll þessi kjördæmi Austur- og Norðurlands að við fáum meiri og aukin tengsl.