Ræðutími í umræðu um þingsályktunartillögu um embættisfærslu umhverfisráðherra

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 13:39:57 (3992)


[13:39]
     Guðrún Helgadóttir (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég tel nauðsynlegt að gefa hv. þingheimi skýrslu um það sem gerðist hér í gær.
    Fyrir dagskrá fundarins lá óvenjulegt mál, svo óvenjulegt að ég minnist ekki í minni þingtíð að annað því líkt hafi legið fyrir, en það var till. til þál. um skipun rannsóknarnefndar til könnunar á embættisfærslu eins ákveðins hæstv. ráðherra, í þessu tilviki umhvrh. Þegar leið að umæðunni kom hæstv. ráðherra til mín og hafði þá verið að átta sig á því að hann fengi einungis 8 mín. til að svara hv. 1. flm., hv. 4. þm. Austurl., og óskaði fyrir hönd þingflokks Alþfl. að með tilliti til þessa óvenjulega máls yrði honum úthlutað 15 mín. eins og 1. flm. Forseti, sem í því tilviki var ég, kannaði síðan 44. gr. þingskapa og þykist vera sæmilega læs en þar stendur á bls. 18 í þingskapalögum breyttum skv. lögum frá 1993. Þetta ákvæði var reyndar í fyrri þingskapalögum. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Við fyrri umræðu má hver ræðumaður tala tvisvar, flutningsmaður allt að 15 mínútum og aðrir þingmenn og ráðherrar allt að átta mínútum í senn. Þá er þessari umræðu er lokið er leitað atkvæða hvort umræðan eigi að ganga til síðari umræðu og nefndar.`` Síðan segir: ,,Forseti getur ákveðið frávik frá þessari málsmeðferð ef fyrir liggur rökstudd beiðni þingflokks þar að lútandi. Hver þingflokkur hefur rétt til að bera slíka beiðni fram við forseta einu sinni á hverju þingi.``
    Ég gerði hæstv. ráðherra grein fyrir því að þar með hefði Alþfl. fyrirgert öðrum rétti til slíkrar beiðni og féllst hann á það.
    Hæstv. forseti minntist hér áðan á að það væri sjálfgefið að hvenær sem vikið væri frá þessu þýddi það að gilda skyldi hin almenna regla. Þetta er að mínu mati rangt. Vegna þess að síðar í 44. gr. er grein um allt annað en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Forseta er heimilt að láta ákvæði 55. gr. gilda [þ.e. almenn umræða, ótímabundin] við fyrri umræðu um þingsályktunartillögur, er fjalla um`` --- og ég bið menn að hlýða á mál mitt --- ,,stjórnskipun, utanríkis- eða varnarmál, staðfestingu framkvæmdaáætlana, alþjóðasáttmála eða milliríkjasamninga, liggi fyrir ósk um það.``
    Ég taldi ekki að þetta mál væri af þeirri stærðargráðu að svo langt þyrfti að ganga og taldi mig þess vegna fullkomlega bæra um . . .  (Forseti hringir.) Ég hlýt að fara fram á, hæstv. forseti, að ég fái að ljúka máli mínu --- fullkomlega dómbæra um það að réttlátt væri að hæstv. ráðherra fengi jafnlangan tíma og hv. 4. þm. Austurl. Ég taldi hins vegar ekki ástæðu til að allir fengju slíkan tíma enda hvað kom í ljós? Enginn sem til máls tók notaði síðari ræðutíma sinn, síðari 8 mínúturnar. Einungis einn meðflutningsmanna hv. 4. þm. Austurl. var í salnum og sá hv. þm., hv. þm. Kristín Einarsdóttir, notaði ekki nema annan ræðutímann. Þannig að um hvað snýst þetta mál eiginlega? Það snýst um sanngirni og réttlæti við óvenjulegar aðstæður. Sé forseti, í þessu tilviki varaforseti þingsins, ekki talinn dómbær þrátt fyrir að hafa stjórnað þessu þingi í þrjú ár --- fyrst kvenna raunar, en það er kannski þess vegna --- sé sá forseti ekki talinn dómbær um viðbrögð við svo óvenjulegum aðstæðum þá óska ég eftir að hv. þingheimur segi það og þá skal ég fúslega víkja úr því embætti.