Embættisfærsla umhverfisráðherra

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 13:55:08 (3997)


[13:55]
     Hjörleifur Guttormsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegur forseti. Það ætlar að leggjast heldur lítið hér fyrir meiri hlutann á Alþingi ef það er rétt að hann ætli að fylgja hæstv. forsrh. í því að koma í veg fyrir að þingleg tillaga fái efnislega umfjöllun á Alþingi, þar á meðal í þingnefnd. Ég hafði ekki grun um að það væru áform uppi um að koma í veg fyrir eðlilega málsmeðferð eftir fyrri umr. málsins sem fór fram í gær. Það var ekkert sem kom fram við þá umræðu sem vísaði til þess að stjórnarliðið þyrði ekki að láta þessa tillögu fá efnislega umfjöllun hér í þinginu, ganga til nefndar og koma til síðari umr. og það reyndi þá í kjölfarið á það hver væri afstaða til tillögunnar. En vegna orðróms sem ég heyrði hér um hádegisbilið að það væru ráð uppi um það meðal stjórnarliða að koma í veg fyrir þetta og fékk það staðfest hjá þingflokksformanni Alþfl. þegar ég spurði hann að því hér rétt áðan hvort þetta væri rétt, þá liggur það nú fyrir sem yfirlýstur ásetningur þó ég vænti þess að hv. þingflokksformaður Alþfl. hafi fyrir því að gera grein fyrir máli sínu hér fyrir atkvæðagreiðsluna.
    Þetta er ekki hægt að kalla öðru nafni en launráð sem hér er verið að vinna, ekkert annað en launráð, þar sem meiri hluti á Alþingi er að bindast höndum um það í laumi að koma í veg fyrir eðlilega þinglega meðferð mála hér í þinginu. Þetta eru algjörlega nýir siðir sem hér er verið að innleiða a.m.k. þann tíma sem ég man eftir hér á Alþingi Íslendinga og ég kvíði satt að segja því fordæmi sem hér er verið að innleiða á Alþingi Íslendinga með þessu. Ég kvíði því gagnvart eðlilegu þinghaldi hér, eðlilegri málsmeðferð og möguleikum þingsins á því að rækja eðlilegt eftirlitshlutverk sitt með framkvæmdarvaldinu.
    Ég mótmæli þessum áformum, virðulegur forseti.