Embættisfærsla umhverfisráðherra

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 14:04:17 (4001)


[14:04]
     Ólafur Ragnar Grímsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. forsrh. hefur staðfest það hér með sínu orðalagi að ríkisstjórnarflokkarnir hafa tekið ákvörðun um það að hindra að þessi tillaga um embættisfærslu umhvrh. fái eðlilega þingmeðferð. Hæstv. forsrh. segir að rökin séu fólgin í því að þetta sé efnislega vantraust á ráðherra. Tillagan er ekki um það. Tillagan er um að þingið geti kallað fram athugun á embættisfærslu ráðherra. Er hæstv. forsrh. virkilega að skapa það fordæmi hér í þinginu að þingið eigi ekki að geta með sjálfstæðum hætti kannað tilteknar og mjög afmarkaðar embættisfærslur ráðherra sem viðurkennt er í öllum þjóðþingum í lýðræðisríkjum að sé sjálfsagður réttur þjóðþings og í Evrópu og Bandaríkjunum er algengt að gert sé án þess að því sé ruglað saman við vantraust á viðkomandi ráðherra?
    Ef hér á að koma í veg fyrir að hægt sé með eðlilegum, þinglegum hætti að fjalla um tillögur sem snúast um mjög afmarkaðar embættisfærslur ráðherra, í þessu tilviki flutning á einu embætti af fjölmörgum sem heyra undir ráðherrann, þá er í raun og veru verið að segja að bannað sé af ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. að kanna hér á Alþingi embættisfærslur ráðherra.
    Alþfl. hældi sér af því, hæstv. utanrrh., að hann hefði ekkert að fela. Alþfl. vísaði embættisfærslum hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar til Ríkisendurskoðunar og hældi sér af því að þar væri svo stórt og mikið gert að allt embætti Ríkisendurskoðunar ætti að kanna þær embættisfærslur. Og Alþfl. hefur líka vísað embættisfærslum hæstv. utanrrh. til sérstakrar rannsóknar hjá Ríkisendurskoðun þó að sú skýrsla sé ekki komin enn. En nú ætlar Alþfl. að standa að því hér að knýja Sjálfstfl. með sér til að koma í veg fyrir að afmörkuð tillaga um eina embættisfærslu umhvrh. fái þinglega meðferð. Svo mikið er í húfi að það á að rjúfa áratuga hefð hér í þinginu til að koma í veg fyrir þinglega meðferð á þessu máli.
    Mér þykir leitt að fornvinur minn, hæstv. umhvrh., skuli ekki vera hér í salnum. Það má segja mér það ekki bara einu sinni heldur tvisvar og jafnvel þrisvar að hæstv. umhvrh. sem sagst hefur ekkert hafa að fela í þessu máli standi líka að því að koma í veg fyrir að þessi tillaga fái þinglega meðferð. Eða er þetta kannski gert að honum forspurðum til þess að setja hann í vont ljós? Hver er skýringin á því að hæstv. umhvrh. er ekki viðstaddur hér og nú? (Forseti hringir.) Því að þessi meðferð er auðvitað sú versta fyrir hæstv. umhvrh., að koma því þannig fyrir hér í þinginu að verið sé að gefa það til kynna að eitthvað stórkostlegt sé falið á bak við þessa embættisfærslu, að það þoli ekki einu sinni þinglega meðferð. Ég bið þess vegna hæstv. forsrh. og forustu Alþfl. að taka sér umhugsunarfrest og beita sér jafnvel fyrir því að þessi atkvæðagreiðsla fari ekki fram í dag svo að menn geti náð hér áttum áður en hún fer fram.