Embættisfærsla umhverfisráðherra

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 14:22:25 (4010)


[14:22]
     Svavar Gestsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Það er vissulega verið að innleiða hér nýja siði. Ég er satt að segja alveg undrandi á þessari niðurstöðu stjórnarmeirihlutans. Er það skoðun hans sem fram kom í máli hv. þm. Vilhjálms Egilssonar að atkvæðagreiðsla eftir fyrstu umræðu mála sé efnisatkvæðagreiðsla máls? Er það afstaða ríkisstjórnarflokkanna að svo sé, að það sé efnisatkvæðagreiðsla eftir fyrstu umræðu máls, þegar mál fer til annarrar umræðu? Það er mjög athyglisvert og það er rétt að hafa það í huga núna næstu daga þegar menn ætla sér að fara að afgreiða ýmis þingmál. Hefur ríkisstjórnin ekki fullan hug á því að fá hér ýmis þingmál afgreidd? Ber okkur í stjórnarandstöðunni þá að taka þessar yfirlýsingar sem merki um það að við eigum að innleiða hér alveg ný vinnubrögð líka? Stjórnarliðið hefur þurft að fara bónarveg að stjórnarandstöðunni í mörgum málum og afgreiðslu þeirra á undanförnum mánuðum og stjórnarandstaðan hefur vikist vel við. Hér á að fara að innleiða algjörlega nýja siði og ég er gáttaður á stjórnarforustunni í þessu máli. Ég er gáttaður á henni.
    Enn þá sérkennilegra væri það nú, hæstv. forseti, ef það gerðist í atkvæðagreiðslu hér á eftir að þeir sem sitja í forsætisnefnd fyrir stjórnarliðið styðji vinnubrögð af þessu tagi. Það er alveg ótrúlegt, satt að segja ef forsætisnefndin ætlar ekki að standa vaktina fyrir þingræðið betur en svo í þessu máli og verður fylgst grannt með því, hæstv. forseti.