Embættisfærsla umhverfisráðherra

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 14:24:11 (4011)


[14:24]
     Guðný Guðbjörnsdóttir (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Hér á landi hefur verið mikil umræða að undanförnu um siðferði í íslenskum stjórnmálum, m.a. var nýlega heilt málþing um þau mál uppi í Háskóla Íslands. Einn angi af þeirri umræðu er sá að hér á landi leyfist ráðherrum ýmislegt sem annars staðar mundi leiða til afsagnar.
    Hér er núna verið að ræða um þáltill. þar sem embættisfærsla eins ráðherra er til umræðu. Það er rætt um það að koma í veg fyrir að tillagan fái efnislega umfjöllun og þar fer sjálfur forsrh. fremstur í flokki. Ég hef ekki mjög langa reynslu hér á Alþingi en þessi umræða fær mig til þess að álykta að ríkisstjórnin telji að hér ríki bananalýðveldi. Hér er ekki um vantraust að ræða heldur tillaga um rannsókn á máli og í þingræðismáli ber slíkri tillögu að fá efnislega umfjöllun. Annað er grafalvarlegt mál og ekki til að bæta siðferði í íslenskum stjórnmálum.