Embættisfærsla umhverfisráðherra

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 14:25:52 (4012)


[14:25]
     Guðrún Helgadóttir (um atkvæðagreiðslu) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingheimi fyrir að sýna fram á það á svo eftirminnilegan hátt að hér er um allsérstætt mál að ræða og því ekki að undra þó forseti kynni að taka óvenjulegar ákvarðanir um fundarstjórn. Hér var minnst á það áðan hvort það væri efnisleg afstaða að vísa máli til nefndar. Auðvitað er það það. Atkvæðagreiðsla um að mál fari til nefndar er um það hvort ástæða sé til að málið fari til nefndar eða eins og segir í sömu 44. gr. þingskapalaga sem hér var vitnað í áðan, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þá er þessari umræðu er lokið er leitað atkvæða um hvort tillagan eigi að ganga til síðari umræðu og nefndar.``
    Ég vænti þess að hv. þingheimur viti það að um það eru greidd atkvæði hvort málið eigi að fara til nefndar.
    Það hefur auðvitað verið hefð, lýðræðisleg hefð mjög svo, að þingmenn láti mál almennt ganga til nefndar svo að nefnd fái tækifæri til að fjalla um það. En það er auðvitað fráleitt að það sé ekki í valdi þingmanna sjálfra hvort þeir sjái ástæðu til að mál gangi til nefndar. Hitt er annað mál að auðvitað hefur það verið skynsamleg afstaða að láta öll mál ganga til nefndar og ég lýsi fyrir mitt leyti minni skoðun á því að ég tel það afar óviturlegt af hæstv. ríkisstjórn og stjórnarflokkunum að koma í veg fyrir að mál af þessu tagi gangi til nefndar.
    Ég held að það sé einungis til að skapa vandræði og ég get lýst því yfir að ég mun styðja það að málið fari til nefndar. Ég hef fylgt þeirri reglu síðan ég kom á þing og mun gera það áfram og má mikið á ganga áður en ég sé ástæðu til þess að neyta atkvæðisréttar míns til þess að hindra það að mál gangi til nefndar.
    En ég vil biðja menn að ræða hér ekki um það eins og þeir hafi aldrei lesið lög um þingsköp að það sé ekki efnisleg afstaða að afgreiða mál til nefndar. Vitaskuld er það það.