Embættisfærsla umhverfisráðherra

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 14:36:28 (4015)

[14:36]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Í umræðum um þessa atkvæðagreiðslu hefur komið fram að hér er á ferðinni einstætt mál á Alþingi í samskiptum stjórnar og stjórnarandstöðu og í störfum þingsins um áratugi. Hér er við atkvæðagreiðslu með ákvörðun forustumanna stjórnarliðsins verið að koma í veg fyrir það að þingið geti með hlutlægum hætti kannað embættisfærslu tiltekins ráðherra í ákveðnu máli. Hér er verið að ganga gegn því sjálfsagða hlutverki Alþingis að geta verið skjól fyrir þegnana í landinu ef ástæða er til að ætla að á þeim hafi verið brotið. Þessi afstaða forustumanna stjórnarliðsins hér er ólýðræðisleg í eðli sínu. Hún gengur gegn réttaröryggi þegnanna og hún er mjög hættuleg fyrir störf Alþingis og orðstír. Ég harma það að svona er gengið að verki. Ég fordæmi þessi vinnubrögð og ég tel í raun óhjákvæmilegt að ef það verður niðurstaða meiri hlutans hér að fella þinglega meðferð þessa máls með því að vísa því frá hér að lokinni fyrri umr., að koma í veg fyrir að málið fari til þingnefndar og komi hér til umræðu, verði það niðurstaðan, þá sé óhjákvæmilegt að draga fram með opinberum hætti, á opinberum vettvangi atriði sem ekki var hugmyndin að draga hér fram í sambandi við umræðu um þetta mál. Þar eru því miður efnisatriði sem ekki er rétt að liggi í þagnargildi ef menn meta það svo að það þoli ekki ljós hér á Alþingi Íslendinga og í rannsókn sérstakrar nefndar. Ég segi já, virðulegi forseti.