Refsiákvæði nokkurra skattalaga

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 15:06:05 (4018)

[15:06]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Frv. það sem hér er til umfjöllunar um breytingar á refsiákvæðum nokkurra skattalaga er flutt af hæstv. fjmrh. Eins og kom fram í máli hans áðan þá var það um síðustu áramót að gott samkomulag tókst um það í efh.- og viðskn. að skilja eftir refsiákvæði bókhaldslaganna og ársreikningalaganna og taka á þeim sérstaklega á þessu þingi. Um þetta var samkomulag. Hér eru komnar fram ýmsar fleiri breytingar á refsiákvæðum einstakra laga og ég tel að það sé af hinu góða. En eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra, þá er forsenda fyrir því að allar þessar breytingar nái fram að ganga að gerð verði breyting á 262. gr. almennu hegningarlaganna og það er frv. sem hæstv. dómsmrh. hefur mælt fyrir svo að það þarf að skoðast í samvinnu þessara tveggja nefnda, hv. efh.- og viðskn. og allshn., og ljúka því máli á sama tíma.
    Einnig voru samþykkt fyrir áramót ný lög um hlutafélög. Það nýmæli er inni í þeim lögum að gerðar eru verulegar breytingar á refsiþætti eða refsikafla þeirra laga, sérstaklega er snýr að þeim er gjaldþrota verða. Ég tel að sú lending sem varð í því máli hafi bætt verulega þann kafla sem var í upphaflegu frv. með það í huga að þar var eins og frv. lá fyrir viss hætta á því að þeim væri refsað sem alveg með heiðarlegum hætti verða gjaldþrota og geta oft ekki ráðið þeirri atburðarás. En í þessu samhengi vil ég minna á við þessa umræðu að við framsóknarmenn höfum flutt frv. til laga um heimildir til þess að dæma menn í tímabundið atvinnurekstrarbann. Það felur það í sér að þá einstaklinga, sem verða brotlegir í atvinnurekstrinum, hvort sem þeir brjóta skattalög eða önnur lög er snúa að atvinnurekstri og ítrekað brjóta af sér, sé hægt að dæma í tímabundið atvinnurekstrarbann, 5 ár hið lengsta. Þetta á sérstaklega við í þeim tilfellum þar sem sömu einstaklingarnir ástunda þá iðju sífellt að breyta um kennitölu í sínum rekstri, færa reksturinn yfir á annan lögaðila og skilja síðan eftir hjá þeim fyrri stórkostlegar skuldir og fara þannig illa með önnur fyrirtæki, aðra lánardrottna, bankastofnanir eða hverja þá aðila sem hafa lánað til viðkomandi starfsemi. Þannig er í raun og veru verið að skekkja mjög samkeppnisstöðu einstakra fyrirtækja sem starfa með sambærilegum hætti og á sambærilegum markaði.
    Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé eitt af mörgum þeim málum sem hér þurfi að gera að lögum til þess að gera refsiákvæði skattalaganna, bókhaldslaganna, hlutafélagalaganna og ársreikningalaganna virk. Ég tek þó undir það með hæstv. fjmrh. að það sem hér er verið að leggja til er til mikilla bóta og ég held að í hv. efh.- og viðskn. sé býsna góð samstaða um að koma þessum málum fram og þau verði hér að lögum áður en Alþingi fer heim.
    Það er rétt eins og fram kom hjá hæstv. fjmrh. að það er mjög mikilvægt að skapa samstöðu með þeim aðilum sem mest um þessi mál fjalla, þ.e. atvinnufyrirtækjunum og þeim aðilum sem skattalögin, bókhaldslögin og ársreikningalögin liggja einna þyngst á. Það eru löggiltir endurskoðendur. Þeir hafa komið á fund í hv. efh.- og viðskn., voru þar með athugasemdir við einstök atriði í fyrirliggjandi frumvörpum þar, en mér finnst að það sé hægt að ná samstöðu um það við nefndina og milli þeirra aðila sem sömdu frumvörpin og löggiltra endurskoðenda að menn nái til að skapa heildstæðan og skynsamlegan ramma um þennan viðurlagakafla. Til þess að menn geti í raun og veru talað um og reynt að koma í veg fyrir skattsvik eins og menn hafa verið að burðast við að undanförnu, og það skal viðurkennt að vissir tilburðir hafa verið í þá átt hjá hæstv. fjmrh. á undanförnum árum og það ber að þakka, þá þurfa menn að hafa tvennt í huga:
    1. Skattkerfið þarf að vera einfalt en það er þó því miður þannig að í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur henni tekist að flækja skattkerfið alveg óskaplega og unnið að vissu leyti nokkur skemmdarverk á því. En forsendan fyrir því að menn geti haft betra eftirlit með skattgreiðslunum, kerfið sé einfalt í framkvæmd og það sé skilvirkt, þá er það frumskilyrði að menn byggi upp skattkerfi sem sé með einu skattþrepi og

sé einfalt til eftirlits. En mikilvægur þáttur í því að gera skattkerfið og eftirlit með skattsvikum virkt er að refsiákvæðin séu til staðar þannig að einstaklingarnir sem brjóta af sér hafi í raun og veru ekki hag af því að geta eyðilagt gögn, komið í veg fyrir að skattrannsóknastjóri geti sannað skattsvik á viðkomandi einstaklinga og þar af leiðandi hafi einstaklingar og fyrirtæki oft hag af því að eyðileggja sönnunargögnin eins og nú er þar sem refsingar eru allt of vægar við slíkum brotum. Ég tel að með þessu frv. og öðru því sem lagt hefur verið til í þessum efnum þá séu menn mjög verulega að styrkja þennan viðurlagaþátt bókhaldslaganna, ársreikningalaganna og skattalaganna og tel það vera af hinu góða og menn séu á réttri leið í þeim efnum og mikilvægt að menn nái því fram á þessu þingi að þessi frumvörp verði að lögum.