Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 16:13:01 (4026)

[16:13]
     Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég hlýt að lýsa nokkurri óánægju minni með það einnig að það eigi að taka þetta mál á dagskrá og ræða það við þær aðstæður, eins og áður var búið að benda á, að ekki hefur verið mælt fyrir því frv. sem eðlilegast væri að tekið væri fyrst fyrir og breytir grundvallarstefnunni í þessum málum, frv. sem hæstv. dómsmrh. eðli málsins samkvæmt hlýtur að flytja og tala fyrir úr því að ríkisstjórnin valdi ekki þá leið sem hún hefur haldið mikið upp á, að flytja um þetta bandorm, þannig að hæstv. forsrh. fengi heiðurinn af því að flytja bandorm fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Þá hlýtur þetta að vera þannig. Ég held að það væri eðlilegt að byrjað væri á frv. hæstv. dómsmrh.
    Í öðru lagi óska ég eindregið eftir því að hæstv. heilbrrh. verði hér viðstaddur því það er náttúrlega algjörlega viðurkennt að þessi mál eru ekki síst heilbrigðismál og eðlilegt að stefna ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum sé jafnframt til umfjöllunar því þetta er óaðskiljanlegur hluti af henni og viðurkennt, m.a. af þessari ríkisstjórn, ekki síður en öðrum, að svo sé að tilhögun á sölu og dreifingu áfengis sé hluti

sem varði heilbrigðisstefnu viðkomandi landa. Trúi hæstv. fjmrh. því ekki þá getur hann flett upp á fyrirvara Íslands í samningnum um EES sem varðar fyrirkomulag á áfengiseinkasölu en þar er það sérstaklega tekið fram að af hálfu ríkisstjórna Norðurlandanna hyggist þær verja þetta fyrirkomulag á grundvelli þess að það sé hluti af þeirra heilbrigðisstefnu. Við þær aðstæður að nú á að fara að leggja til að breyta þessu, að mínu mati að tilefnislausu, þá tel ég alveg ómögulegt, hæstv. forseti, að fara í þessa umræðu nema hæstv. heilbrrh. sé jafnframt viðstaddur og einnig að eðlilegra væri að byrjað væri á máli hæstv. dómsmrh.
    Ég vil ítreka það hvort ekki sé unnt að verða við því að fresta þessari umræðu og taka frekar fyrir önnur mál á dagskrá sem mér skilst að sé nóg af og gott ef ekki önnur mál sem undir hæstv. fjmrh. heyra. Ef svo er ekki þá hlýtur maður að fara að trúa því að hér sé um alveg sérstakt hugarfóstur og uppáhaldsmál hæstv. fjmrh. að ræða.