Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 16:58:23 (4031)


[16:58]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef rætt við hv. þm. með rökum, gerði það bæði fyrr og nú. Málið er það

að það er engin breyting að verða í verðstefnu á áfengi hér á landi. Smásölustöðum fjölgar ekkert við þetta. Við höfum í dag umboðsmannakerfi, umboðsmenn eru að kynna sínar áfengistegundir nú þegar. Við höfum áfengi fyrirliggjandi á frísvæði en munurinn er bara sá að þar verður ríkið að veita alltaf eitthvert leyfi til þess að taka þetta áfengi út. Þetta hefur verið að breytast annars staðar, í nágrannalöndum okkar, vegna þess að það er ekki lengur á færi ríkisins að vera að velja og hafna hvað Íslendingar eiga að drekka frekar en ríkið á að gera það annars staðar. Það er ekki þar með sagt að það eigi að fara hella áfengi ofan í hvern mann meira heldur en góðu hófi gegnir, það er ekki verið að leggja það til í þessu frv. Það eru útúrsnúningar. Og þegar menn eru að verja þetta gamla ,,system`` þá getur vel verið að þeir verði mjög hrifnir þegar þeir eru sagðir vera íhaldsmenn en kannski hefði átt að nota orðið afturhald þegar ég var að lýsa þeim viðhorfum sem komu fram hjá hv. þm. Ég vil bara benda á að hér er um að ræða breytingu sem er eðlileg breyting. Það er ekkert sjálfsagt að ríkið sjái um alla hluti alla tíð þótt það hafi verið það kerfi sem við höfum búið við. En ég er alveg sammála hv. þm. að við eigum að snúa okkur að því að koma í veg fyrir unglingadrykkju og koma okkur af fullri alvöru í að koma í veg fyrir ofdrykkju hér á landi. Það getum við gert og orðið sammála um en það getum við ekki gert ef menn halda að leiðin til þess sé sú að ríkisvaldið hafi einkaleyfi á því að flytja inn áfengi. Það er engin vörn í því. Það getur meira að segja gefið falskar hugmyndir um það að einhver vörn sé í því af hálfu ríkisins.