Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 17:03:01 (4033)

[17:03]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þetta frv. sem við erum að ræða, um að breyta lögum um verslun ríkisins með áfengi og tóbak, er að mínu mati, eins og ýmissa sem hér hafa talað, mjög ótímabært. Það er auðvitað ekki rétt sem hæstv. fjmrh. hefur sagt hér að það verði engin stefnubreyting á þessum málum við þetta frv. og önnur þau sem því munu fylgja, enda er hann ekkert sérstaklega að hugsa um það hvort það verður einhver stefnubreyting. Það er ekki málið því í 1. mgr. í athugasemdum með þessu lagafrv. kemur fram hvað er fyrst og fremst verið að stefna að. Það er í samræmi við fyrirheit í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að draga úr ríkisumsvifum. Það er einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar sem hér er verið að framfylgja fyrst og fremst og það er lítið hugsað um hverjar afleiðingarnar geta orðið.
    Ég hygg að það væri rétt að minna á minnisblað frá Starfsmannafélagi ÁTVR, sem barst mér í hendur hinn 6. des. sl., þar sem þeir taka fram ýmis atriði sem þeir óska að verði gerð að umtalsefni þegar þetta frv. verður rætt. Það er þá fyrst til þess að taka þar sem hér er um hæstv. fjmrh. að ræða, sem leggur fram þetta frv., að mér finnst það einnig skjóta nokkuð skökku við þær athugasemdir sem starfsmannafélagið gerir hér, að tekjurnar sem nú eru í hendi í sambandi við Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins muni lækka um 50 millj. kr. Og af því að hæstv. heilbrrh. er einnig kominn í salinn þá mætti kannski minnast á það að hann er að koma á tilvísunarkerfi til þess að spara 100 millj. kr. að hans sögn. En hér ætlar hæstv. fjmrh. að leggja fram frv. sem skerðir tekjur ríkisins um 50 millj. kr. Þannig að það virðist vera að önnur höndin viti ekki hvað hin gerir í þessari ríkisstjórn.
    Það eru ýmsar ábendingar sem koma fram hjá starfsmannafélaginu og m.a. það að verið sé að vitna í það að þessa breytingu þurfi að gera vegna EES-samningsins, vegna þess að EES-nefndin hefur úrskurðað í þessa veru, að það verði að breyta þessu. En hins vegar er svo einnig hægt að benda á það að Norðmenn hafa ekkert gert í þessum málum enn þá og eru ekki að gera neitt í því að breyta þessu. Starfsmannafélagið bendir hér á ákveðna lausn um breytingu á einni grein í lögunum sem hægt væri að gera til þess að koma til móts við þennan úrskurð EES-nefndarinnar, til þess að það væri hægt að fullnægja samningi.
    Það er því ekki rétt hjá hæstv. fjmrh. að það sé verið að gera þessa breytingu til þess að fullnægja EES-samningnum. Hann er aðeins notaður sem skálkaskjól til þess að koma fram einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar.
    Ég vildi líka spyrja hæstv. ráðherra að því hvernig hann ætlar að koma fram t.d. einhverri verðstýringu í sambandi við áfengissölu. Nú er það viðurkennt að áfengis- og tóbaksneysla er heilbrigðisvandamál og nýlega lagði hæstv. heilbrrh. fram frv. um tóbaksvarnir þar sem áætlað er að hækka verð á tóbaki á næstu árum um 10% umfram aðrar vörur. Það er m.a. notað í þeim tilgangi að með verðstýringu megi hugsanlega draga úr sölu og notkun á tóbaki. En hefur hæstv. fjmrh. hugsað það dæmi, hvort hann hafi nokkur tök á því að stjórna eða hafa einhverja verðstýringu í sambandi við áfengi, allra síst með því að losa um einkasölu ríkisins?
    Eftirlitið hlýtur einnig að verða miklu erfiðara, að hafa eftirlit með því hvort menn eru að selja löglega innflutt áfengi eða ekki. Í dag er t.d. allt áfengi sem selt er veitingahúsum merkt sérstaklega og meira að segja hægt að merkja áfengið hverju húsi fyrir sig. Þetta gerir ÁTVR í dag í samráði við lögreglu og skattayfirvöld og þannig er hægt að fylgjast vel með því hvort smygl eða brugg sé á boðstólnum eða ekki. En það kemur ekkert fram í þessu frv. að þetta eftirlit verði haft því það virðist eiga að hætta öllu slíku eftirliti eftir gildistöku þessa frv., ef það verður að lögum. Það á ekki lengur að merkja áfengi sem er selt veitingahúsum.
    Það mætti einnig spyrja að því hver á að fylgjast með því að umboðsmenn selji þá eingöngu til veitingahúsa en ekki til almennra neytenda? Hvernig verður yfirleitt eftirlitið háð eða verður það bara alls ekki neitt?
    Það mætti auðvitað halda áfram að tala margt og mikið um einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar, en hvað snertir þetta sérstaka mál þá er ekki hægt að komast hjá því að minna á það að um mitt ár 1992 seldi fjmrh. framleiðsludeild ÁTVR og tók þá ákvörðun raunverulega einn og sér eða það þurfti a.m.k. ekki að gera neinar lagabreytingar til þess að hann gerði það. Það hefur hins vegar ekki verið fjallað neitt sérstaklega um þessa sölu annað en að þetta var tekið fyrir í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem fjallaði um einkavæðingu og sölu ríkiseigna. Það væri fróðlegt fyrir þingmenn að skoða það sérstaklega í þeirri skýrslu hvaða afleiðingar þessi sala hefur haft fyrir ríkissjóð. Salan á framleiðsludeildinni var boðin út og samið við hæstbjóðanda, en samkvæmt kaupsamningi sem var gerður þá fengust rúmlega 15 millj. kr. án virðisaukaskatts fyrir framleiðsludeildina. Og áður en kaupsamningurinn var gerður þá lá fyrir álit yfirmanns framleiðsludeildarinnar um það að þetta væri of lágt verð. Það álit var virt að vettugi og greinilegt að það átti að selja framleiðsludeildina hvað sem það kostaði, rétt eins og aðrar eignir sem ríkisstjórnin tekur ákvörðun um að selja eða gefa, alveg sama hvort hún fær eitthvað sanngjarnt verð fyrir þær eða ekki.
    Í þessum útboðsgögnum komu fram tölur úr framleiðslubókhaldi frá ÁTVR. Fyrir árið 1990 kom fram að framleiðsludeildin skilaði hagnaði upp á tæpar 6 millj. kr. og að auki rúmlega 12 millj. upp í fastan kostnað hjá fyrirtækinu. Eftir söluna tapaði ÁTVR auðvitað þessum hagnaði og situr uppi með fastakostnaðinn við reksturinn. Það er því óhætt að segja að tekjutapið var þarna líklega í kringum 17 millj. kr. og söluandvirðið var í raun og veru þá ekki einu sinni fyrir tekjumissi eins árs. Þannig að þá sjáum við hversu hagstæð salan á þessu hefur verið þar sem salan var ekki nema 15 millj. kr.
    Það er því flest á eina bókina lært með þessa einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar og sölumál í framhaldi af því.
    Ég vil þó fyrst og fremst leggja áherslu á þá breytingu sem hér verður á áfengisdreifingunni, sem ég tel að sé mjög hættuleg. Að breyta því skipulagi sem verið hefur, sem hefur gefið góða raun og hefur orðið til þess að hægt er að fylgjast vel með áfengissölunni. Það er alltaf hægt að vita það hvort um er að ræða áfengi sem flutt er inn á vegum Áfengisverslunarinnar eða hvort hér er um brugg að ræða, enda tekst þá í miklu meira mæli, held ég, að koma í veg fyrir brugg og sölu á því. En með því að opna þetta, þó ekki sé verið nema að opna fyrir innflutninginn, þá tel ég að hér sé verið að fara inn á ranga braut. Ég er ansi hrædd um að hér sé bara verið að opna í hálfa gátt og í framhaldi af því verði síðan smásalan gefin frjáls líka. Við vitum að það er alltaf tilhneiging til þess að halda þessu áfram þegar byrjað er á þessu.
    Ég get ekki annað en sagt nokkur orð um það sem hæstv. fjmrh. sagði áðan, að þingmenn vildu

viðhalda einokun og hefðu haldið lengi við einokunarinnflutningi á eldspýtum. Ég verð að segja að mér finnst verðmætamat hæstv. fjmrh. nokkuð einkennilegt ef hann leggur að jöfnu hvort innflutningur á eldspýtum er frjáls eða hvort innflutningur á áfengi er frjáls og tel ég þar engu saman að jafna í þeim efnum, um ólík mál er að ræða.
    Það er einnig ástæða til þess að gera athugasemd við það að þessi frv. sem eru hér frammi um breytingu á áfengislögum og verslun ríkisins með áfengi og tóbak, sem óneitanlega hanga nokkuð saman, skuli hér komin fram áður en mælt er fyrir breytingu á áfengislögum, nr. 82/1969, því að í þau er vitnað í frv. um breytingu á lögum nr. 63/1969 og nánast ekki hægt að ræða þetta frv. nema í tengslum við breytinguna á áfengislögunum sem fyrirhuguð er í tengslum við þetta. Það er mjög sérkennilega að þessu farið að leggja þessi frumvörp fram til umræðu en áður en mælt er fyrir hinu frv.
    Ég tel það einsýnt eins og ég sagði og þarf svo sem ekki að hafa um það mörg fleiri orð að ég tel að ríkisstjórnin sé fyrst og fremst að uppfylla sína einkavæðingarstefnu. Hún hugsar ekki um heilbrigðismál í þessu sambandi. Mundi hún gera það þá held ég að hún færi varlegar í þessar sakir. Það er alveg ljóst að þessi opnun er aðeins undanfari annars meira, á því tel ég ekki nokkurn vafa og ég vara eindregið við því að þessi frumvörp verði afgreidd hér þó að sjálfsögðu verði þeim vísað til nefndar en ég tel að við þurfum ekki að hraða okkur við það að afgreiða þessi frumvörp og ég leggst eindregið gegn því að þau verði afgreidd sem lög frá þessu þingi.