Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 17:19:20 (4035)

[17:19]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Þetta frv. sem hér liggur fyrir er með þeim hætti að það er full þörf á því að það sé rætt nokkuð rækilega. Hér er satt að segja á ferðinni stóralvarlegt mál sem er eins og hv. þm. Steingrímur Sigfússon rakti skilmerkilega fyrr í dag kannski heilbrigðismál. Það er dálítið sérkennilegt að hafa hér uppi umræðu um þetta mál án þess að hafa viðstaddan hæstv. heilbr.- og trmrh.
    ( Forseti (GHelg) : Forseti vill upplýsa að hæstv. heilbr.- og trmrh. er í húsinu og hann mun koma hér.)
    Ég þakka hæstv. forseta fyrir. Þetta er fyrst og fremst heilbrigðismál og þannig er það, mér liggur við að segja með flestum siðuðum þjóðum, að heilsufarsvá áfengis er látin ráða úrslitum um það hvernig sölu og meðferð áfengra drykkja er yfirleitt háttað. Stofnun eins og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur fjallað um þessi mál mjög rækilega á þingum sínum og Heilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO hefur lýst því yfir að neysla áfengis sé meðal alvarlegustu heilsufarsvandamála á Vesturlöndum. Það er nokkuð mikið sagt í raun og veru.
    Það liggur einnig fyrir samkvæmt upplýsingum sem teknar hafa verið saman að áfengisvandamál eru hvergi hrikalegri á norðurhveli jarðar en í þeim löndum þar sem ekki er áfengiseinkasala heldur er um að ræða frjálsa sölu á áfengi t.d. í Danmörku og ég tala nú ekki um á Grænlandi. Af þessum ástæðum er það t.d. þannig að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin sem hefur kjörorðið Heilsa handa öllum árið 2000 telur að megin- og helsta aðferðin til að ná þessu markmiði sé sú að reyna að skera niður neyslu áfengis um 25%. Og það verður að viðurkenna það að þessu miðar mjög hægt en þetta segir engu að síður sína sögu um þann veruleika sem blasir við. Landssambandið gegn áfengisbölinu hefur sent okkur þingmönnum áskoranir og bréf út af þessu máli og ég hef hér í höndum bréf sem skrifað er 12. des. 1994 af Herði Zóphaníassyni, formanni Landssambandsins gegn áfengisbölinu, en Hörður er jafnframt einn af virtustu forustumönnum Alþfl. í Hafnarfirði um áratuga skeið. Ég vil satt að segja nota þetta tækifæri til að inna eftir því ef einhver slíkur mætti heyra mál mitt hvort Alþfl. hafi fjallað um þessar alvarlegu aðvaranir sem hafa komið frá Herði Zóphaníassyni, formanni Landssambandsins gegn áfengisbölinu, og ég spyr vegna þess, hæstv. forseti, að ég hef grun um það og mig rámar í það reyndar úr umræðunni um bjórinn á sínum tíma að það þótti í raun og veru ekkert mjög merkilegt sem kom frá þessum samtökum, Landssambandinu gegn áfengisbölinu eða áfengisvarnaráði og ég man eftir því að þegar við vorum að lesa upp umsagnir frá þessum aðilum, m.a. í þessum ræðustól eða í efri deild þar sem ég átti á sæti, þá töldu menn það ekki mjög mikið innlegg í málið vegna þess að þarna væri um að ræða fólk sem í raun og veru hefði ekki rétta sýn á þennan vanda af einhverjum ástæðum. Ég held að okkur sé skylt að sýna því fólki sem stýrir þessu landssambandi fulla virðingu ekki síður en öðrum landsmönnum og það er einnig rétt að víkja að því í þessu samhengi að það er til lögformleg stofnun sem á að ráðleggja stjórnvöldum í þessum málum. Hún starfar samkvæmt lögum. Það er ekki stofnun eða samtök áhugamanna sem hafa tekið sig saman og sagt sem svo: Við höfum áhuga á því að berjast gegn áfengisbölinu. Nei, áfengisvarnaráð er annars konar stofnun vegna þess að hún byggist á lögum, hún byggist á ákvörðunum sem teknar eru í þessari virðulegu stofnun.
    Nú verður að segja það eins og er að það er eðlilegt að menn ræði nokkuð um hlutverk og vinnuaðferðir áfengisvarnaráðs og ég tel að það ætti kannski að gera það við tækifæri að fara aðeins yfir hina almennu stefnumótun í áfengismálum. Því miður hefur það ekki fengist gert. Meðan ég fór með heilbrrn. skipaði ég nefnd sem hafði það hlutverk að gera tillögur um mótun í stefnu hins opinbera í áfengismálum yfirleitt. Sú nefnd skilaði mjög myndarlegu áliti til þáv. forsrh. sem síðar tók við. Það var á árinu 1985 sem þáv. forsrh. Steingrímur Hermannsson tók við því áliti og það verður að segja það eins og er að það var ekkert gert með þetta álit. Það var unnið af alls konar fólki. Það var ekki einungis Landssambandið gegn áfengisbölinu, áfengisvarnaráð, sem kom þar við sögu heldur fjöldi annarra aðila eins og fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna. Ég held að það sé af þessum ástæðum, vegna þess að við höfum ekki breytt lagastoð áfengisvarnaráðs, sem við verðum hvort sem mönnum líkar það betur eða verr að hlusta á það sem áfengisvarnaráð hefur verið að segja. Áfengisvarnaráð hefur sent frá sér sérstakt bréf vegna þeirra frumvarpa sem voru til umræðu á þessum fundi og þar segir m.a. svo, með leyfi forseta:
    ,,Rökstuddar ástæður eru til að vara við því að tugum eða jafnvel hundruðum innflytjenda verði heimilað að selja áfengi beint til yfir 300 áfengisveitingastaða. Hætt er við að sala ólöglegs áfengis, smyglaðs eða bruggaðs, aukist stórum og það því fremur ef hætt verður að auðkenna þetta vímuefni með nafni ÁTVR. Að sama skapi munu tekjur ríkisins af áfengisgjaldi dragast saman.``
    Ég hef fylgst með þessari umræðu sem hér hefur farið fram í dag og ég hef einnig lesið þau gögn sem fram hafa komið frá hæstv. ríkisstjórn um þetta mál. Ég hef ekki séð satt að segja að hún svari þessum athugasemdum sem er þó aðeins 1. tölul. í þessum athugasemdum sem okkur bárust með sérstöku bréfi frá áfengisvarnaráði sem dags. er í desember 1994. Er hæstv. fjmrh. ósammála því að það sé hætt við því að sala ólöglegs áfengis, smyglaðs eða bruggðas, aukist stórum ef þessu er sleppt út úr ríkiskerfinu? Hefur hann einhver önnur rök? Aðalrök áfengisvarnaráðs eru þau að þar með verður hætt að auðkenna þetta vímuefni með auðkenninu ÁTVR. Þar með verður í raun og veru ekkert sérstakt landsþekkt og landsviðurkennt auðkenni á þessu sérstaka vímuefni, aðeins það vörumerki ef um er að ræða venjulegt áfengi sem notað er í hverju tilviki.
    Síðan segir hér í athugasemd áfengisvarnaráðs að tekjur ríkisins af áfengisgjaldi muni dragast saman. Rökin eru þau að það verði margir aðilar sem verði með þetta. Fjmrh. vísar því á bug og segir að það verði enginn vandi að ná þessu gjaldi. Málið er ekki alveg svona einfalt. Hvað er hæstv. fjmrh. að eltast við mikið af skattsvikum á hverju ári? Hvað er hann að eltast við mikið? Hann er að eltast við 11 milljarða kr. sem vantar í ríkissjóð vegna skattsvika, vegna þess að peningar skila sér ekki í framtölum. Halda menn að það verði eitthvað auðveldara að eiga við tekjur af áfengi ef kannski mörg, mörg hundruð aðilar eru farnir að flytja þetta inn og enn mörg mörg hundruð aðilar farnir að keyra þetta út um allar koppagrundir, m.a. hér í Reykjavík þar sem eru 200--300 áfengisveitingastaðir? Halda menn að það verði eitthvað auðveldara að halda utan um þessi mál? Staðreyndin er sú að það verður dýrara fyrir ríkið að halda utan um þetta og það verður minna sem kemur í kassann. Það er tvöfaldur mínus sem þarna er um að ræða þannig að ég segi fyrir mitt leyti að ef ég væri fjmrh. þó það væri ekki nema bara af þessum ástæðum og burt séð frá heilsufarsástæðunum þá mundi ég víkja þessu máli frá mér vegna þess að hér er um tvöfalt tap að ræða.
    Í öðru lagi bendir svo áfengisvarnaráð á það að þetta frv. gengur eins og hér segir í áliti áfengisvarnaráðs þvert á stefnu frv. til laga um áfengisvarnir og aðrar vímuefnavarnir sem Sighvatur Björgvinsson, hæstv. heilbr.- og trmrh., sem nú gekk í salinn, lagði fyrir á Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991--1992. Það frv., stendur hér, var afar vel undirbúið eins og sjá má af greinargerð sem því fylgir, segir áfengisvarnaráð. Ég vil spyrja hæstv. heilbrrh.: Er þetta rétt? Er hann sammála þessari skoðun áfengisvarnaráðs og hvað er áfengisvarnaráð gagnvart heilbrrh.? Áfengisvarnaráð er aðalráðgjafi heilbrrh. í þessu málum samkvæmt lögum. Hvað segir hann um það að þetta frv. gangi þvert á stefnu frv. til laga um áfengisvarnir og aðrar vímuefnavarnir?
    Í þriðja lagi segir hér í áliti áfengisvarnaráðs og því verður hæstv. ráðherra að svara líka: ,,Frv. þetta er í beinni andstöðu við frv. til laga um breyting á áfengislögum, nr. 82 2. júlí 1969, með síðari breytingum, sem núv. félmrh. Rannveig Guðmundsdóttir og Petrína Baldursdóttir lögðu fram á þingi því er nú situr.``
    ( Forseti (GHelg) : Nú verður forseti að trufla ræðu hv. þm. Um það var talað að fresta þessari umræðu um kl. 5.30 og ég vil spyrja hv. ræðumann hvort hann telur sig eiga mikið eftir af ræðu sinni.)
    Nokkuð svo, forseti.
    ( Forseti (GHelg) : Verði því ekki mótmælt þá hlýtur forseti að biðja hv. ræðumann að fresta ræðu sinni.)
    Má ég kannski spyrja hæstv. forseta hvenær ætlunin er að halda umræðunni áfram.
    ( Forseti (GHelg) : Ekki hygg ég að það geti orðið fyrr en þá á morgun eða á næstu dögum.)
    Ég geri þá hlé á ræðu minni.