Matvæli

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 17:32:31 (4036)


[17:32]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Frv. það sem ég mæli fyrir er lagt fram á Alþingi í þriðja sinn. Það var upphaflega lagt fram á 116. löggjafarþingi 1992--1993 og þá var það lagt fram til kynningar og sá sem hér stendur lagði það fram. Síðan lagði ég það aftur fram á 117. löggjafarþinginu árið 1993. Þann 1. júní sl. færðust hins vegar málefni er varða hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, þar með talin matvæli, til umhvrn. frá heilbrrn. Frv. er nú lagt fram að nýju að mestu óbreytt, en þó hafa verið gerðar nokkrar breytingar á því með hliðsjón af umsögnum sem bárust til heilbr.- og trn. þegar málið var til meðferðar hjá nefndinni á síðasta löggjafarþingi, auk þess sem gerðar eru nauðsynlegar breytingar á frv. með tilliti til þess að það er nú umhvrh. en ekki heilbrh.- og trmrh. sem fer með yfirstjórn málaflokksins.
    Frv. þetta var upphaflega samið af nefnd sem Guðmundur Bjarnason, þáv. heilbr.- og trmrh., skipaði í ársbyrjun 1989 og var nefndinni falið að gera tillögur að nýjum matvælalögum sem áttu að koma í stað laga nr. 24/1936, um tilbúning og dreifingu matvæla og annarra neyslu- og nauðsynjavara, svo og annarra síðar tilkominna laga er tengjast framleiðslu, dreifingu, sölu og eftirlits með matvælum. Nefndinni var sérstaklega ætlað að hafa hliðsjón af löggjöf annarra Norðurlanda og Evrópubandalagsins um matvæli.
    Meðan nefndin starfaði urðu miklar umræður um matvælalöggjöf, ekki síst í tengslum við samning um Evrópskt efnahagssvæði, en óvíða hefur hann meiri áhrif en einmitt á þessu sviði. Því var ákveðið að nefndin stæði þannig að málum að frv. til nýrra matvælalaga tæki fyrst og fremst mið af reglum Evrópusambandsins. Frv. sem hér er mælt fyrir gerir það í öllum megindráttum.
    Ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um aðdraganda frv., hvað þá heldur um þróun matvælalöggjafar og matvælaeftirlits, en vísa í staðinn til framsöguræðu fyrrv. heilbr.- og trmrh. er þeir mæltu fyrir frv. á 117. löggjafarþingi 21. okt. 1993 og á þinginu þar áður, sbr. 85. mál, þskj. 88 frá 21. okt. 1993. Helstu nýmæli frv. eru:
    1. Yfirstjórn matvælalöggjafar er samræmd og eftirlitið verður á vegum þriggja ráðuneyta og stofnana þeirra.
    2. Meðferð matvæla á einkaheimilum fellur utan laganna nema þar fari fram framleiðsla matvæla til dreifingar utan heimilisins og er það í samræmi við ákvæði í löggjöf Evrópusambandsins.
    3. Ákvæði um þekkingu og fræðslu með tilliti til þess að framleiðendur og dreifendur beri ábyrgð á eigin vöru og að vandað sé til framleiðslu og meðferð þeirra eru ný. Jafnframt er það nýmæli að heimildir eftirlitsaðila til að gera kröfur um heilsufarsskoðun starfsfólks sem starfar við framleiðslu og dreifingu matvæla eru samræmdar.
    4. Sett eru ákvæði um sérfæði, m.a. fæðu sem ætluð er börnum og er það í samræmi við ítarlega löggjöf Evrópusambandsríkjanna þar að lútandi.
    5. Sett eru skýr ákvæði um ábyrgð eiganda eða umráðanda flutningstækis sem flytur matvæli, en slík ákvæði eru ekki í gildandi lögum og teljast mjög brýn þegar matvæli eru flutt langar leiðir, t.d. með vöruflutningabílum.
    6. Ákvæði um umbúðamerkingar eru ítarlegri og taka mið af þeirri áherslu sem lögð er á góðar umbúðamerkingar í löggjöf annarra ríkja og má nefna Evrópusambandslöndin og Bandaríkin í því sambandi.
    7. Ítarlegri ákvæði eru um fræðslu til almennings en mikilvægt er talið að ná markmiðum bættrar framleiðslu og meðferðar matvæla með því að auka þekkingu og skilning neytenda.
    8. Ákvæði eru um tilkynningarskyldu þegar ný framleiðslutækni er tekin í notkun.
    9. Ákvæði er um samræmingu á starfsemi eftirlitsaðila sem miða að því að koma í veg fyrir skörun verkefna.
  10. Í frv. gætir nýrra viðhorfa um eftirlit þar sem lögð er áhersla á innra eftirlit framleiðenda og dreifenda, auk þess sem fjallað er um faggildingu.
  11. Segja má að gjaldskrárheimildir séu þær sömu fyrir allar þær ríkisstofnanir sem tilgreindar eru sem eftirlitsaðilar í lögunum og er þar skírskotað sérstaklega til ákvæða laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, þar sem fjallað er um gjaldtökuheimildir heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga.
  12. Heimildir lögboðinna eftirlitsaðila til afskipta eru samræmdar, enda nauðsynlegt að þessir aðilar starfi á grundvelli sömu heimilda og hafi samráð um aðgerðir. Valdsvið og þvingunarúrræði eru þannig samræmd. Sama gildir um málsmeðferð, úrskurð og viðurlög og skiptir ekki máli hvort eftirlitsstofnun starfar á vegum umhvrn., landbrn. eða sjútvrn.
    Ég vil vekja athygli á að eina efnislega breytingin sem hefur verið gerð á frv. frá því það var síðast til umræðu hér, ef frá eru taldar breytingar sem byggjast á umsögnum sem bárust heilbr.- og trn. og tilfærslu málaflokksins milli ráðuneyta, sbr. það sem áður segir, er ákvæði 1. mgr. 15. gr. þar sem fram kemur að matvælaumbúðir skulu merktar með nafni og heimilisfangi framleiðenda eða dreifenda með aðsetri á Evrópsku efnahagssvæði. Er það í samræmi við þær skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist í tengslum við Evrópskt efnahagssvæði.

    Virðulegi forseti. Eg hef farið hér nokkrum orðum um frv. til laga um matvæli og leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og meðferðar í umhvn. Jafnframt vil ég lýsa þeirri skoðun minni að ég tel óþarft að leitað verði umsagna um frv. þar sem þeirra var leitað á vegum heilbr.- og trn. þegar frv. var til umræðu á síðasta Alþingi, enda tel ég að ástæðan fyrir því að frv. náði ekki fram að ganga þá hafi verið sú fyrst og fremst að til stóð tilflutningur málaflokksins milli ráðuneyta. Ég tel mjög brýnt að frv. nái fram að ganga á yfirstandandi Alþingi, enda er um að ræða frv. er tengist samningnum um Evrópskt efnahagssvæði er tók gildi um síðustu áramót.
    Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.