Leigubifreiðar

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 18:09:27 (4044)


[18:09]
     Björn Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Ég vildi fá leyfi til að taka til máls að nýju vegna þess að misskilja mátti orð mín áðan þegar ég talaði um aldursmörkin eins og þau voru fram til laganna 1989. Það hefði mátt skilja þau þannig að þá hefði verið hámark 75 ára aldur en lagaákvæðin fram til 1989 voru á þann veg að ekkert aldurshámark var í lögum. Vildi ég leiðrétta þetta þannig að það væri ekki misskilningur um þetta atriði. Það sem gerðist árið 1989 var að það voru sett inn í lögin ákvæði um 75 ára hámarksaldur varðandi nokkra menn en meginreglan síðan mótuð sú að eftir að það tímabil rynni út þá yrði hámarksaldurinn 70 ár. Mitt meginerindi í þessar umræður er það að ég tel að þessi 70 ára regla sé ekki einhlít í þessu efni og menn geti ekki litið á þessa atvinnu eins og hverja aðra því hér er um sjálfstæðan atvinnurekstur að ræða og mætti frekar líkja þessu við störf sjálfstæðra kaupmanna eða bænda. Spurningin er fyrst og fremst hvort viðkomandi einstaklingar séu hæfir til að stunda þessi störf frekar en að hægt sé að tala um að þeir eigi að lúta sömu reglum og þeir sem eru í fastri vinnu hjá atvinnurekendum.
    Það meginsjónarmið tel ég að við megum ekki hundsa þegar við ræðum þetta og veltum þessu fyrir okkur. Menn geta komið með ýmis rök fyrir því að setja 70 ára aldursmörkin. Ef þau lúta að öryggismálum og umferðaröryggi þá höfum við umferðarlöggjöfina sem mælir fyrir um það hvaða skilyrði menn þurfa að uppfylla til þess að geta stundað akstur. Það er hægt að nálgast þetta mál með ýmsum hætti og ég hvet hv. samgn. til að gera það.
    Varðandi tímamörkin þá held ég að þetta mál sé það ítarlega kannað og rætt og sjónarmið skýr og glögg orðin að ef vilji stæði til að klára málið núna fyrir þinglok þá væri það vel unnt og mundi ekki skaða málið neitt efnislega og formlega tel ég mjög brýnt að þetta mál klárist á þessu þingi vegna stöðu okkar gagnvart Evrópuráðinu þar sem ýtt er á það að við uppfyllum þær skyldur sem okkur ber samkvæmt sáttmála þess. Fyrir okkur sem gamalgróið lýðræðisríki er mjög mikilvægt finnst mér gagnvart því samstarfi öllu að það verði ekki unnt að saka okkur um að draga úr hömlu að gera lagabreytingar vegna ábendinga frá Mannréttindadómstólnum. Evrópuráðið hefur verið að stækka mjög mikið og þar eru nú 34 ríki, mörg nýfrjáls ríki og ríki sem eru að feta sig áfram á lýðræðisbrautinni og fyrir einstaklinga þar skiptir mjög miklu máli að unnt sé að benda á hollustu eldri ríkjanna við ákvæði mannréttindasáttmálans og þær reglur sem þar hafa verið settar. Ég vildi síður sjá Ísland notað sem skálkaskjól fyrir einhverja sem vilja skirrast við að
laga lög sín að þessum grundvallarsáttmálum sem snerta mannréttindi og lýðréttindi í Evrópu allri.