Umfjöllun allshn. um þáltill. um embættisfærslu umhverfisráðherra

89. fundur
Miðvikudaginn 08. febrúar 1995, kl. 13:31:54 (4049)

[13:31]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það eru tíðindi í störfum þingsins hér dag hvern. Í gær máttu menn upplifa þá stund að stjórnarliðið reyndi að kom í veg fyrir að mál fengi þinglega meðferð en sem betur fer var það sjónarmið undir og máli því sem um var að ræða, skipun rannsóknarnefndar vegna starfa umhvrh. í tilteknu máli, var vísað til allshn. Það mál var tekið fyrir í allshn. í morgun og enn á ný tókst stjórnarliðinu að brydda upp á nýjungum í þingstörfum með því að koma þar í veg fyrir að nefndin gæti tekið málið fyrir að efni til og fjallað um það. Áður en umræða hófst um málið í nefndinni var lögð fram tillaga starfandi formanns nefndarinnar, varaformanns Alþfl., þar sem segir að nefndin hafi fjallað um málið. Fjórir nefndarmenn, allir fulltrúar stjórnarandstöðunnar, komu fram með óskir um gögn til þess að fá upplýsingar um það mál sem við áttum að fara að athuga. Enn fremur komu fram óskir um aðila til viðtals við nefndina svo menn gætu kynnt sér það mál sem okkur hafði verið með ákvörðun þingsins falið að athuga að efni til. Formaður nefndarinnar, starfandi formaður, varaformaður Alþfl., neitaði þeim óskum. Hann neitaði óskum fjögurra nefndarmanna um gögn og hann neitaði öllum óskum nefndarmanna um menn til viðtals. Að þeirri neitun frágenginni var samþykkt með atkvæðagreiðslu að taka málið út úr nefnd fullkomlega að óathuguðu máli.
    Virðulegur forseti. Ég vil mótmæla þessum störfum og vænti þess að forseti hafi bein í nefinu til þess að sjá til þess að stjórnarliðið komist ekki upp með að lítilsvirða þingræðið dag eftir dag með störfum sínum af þessu tagi.