Umfjöllun allshn. um þáltill. um embættisfærslu umhverfisráðherra

89. fundur
Miðvikudaginn 08. febrúar 1995, kl. 13:36:31 (4051)


[13:36]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Innan allshn. hafa að jafnaði ríkt frekar fagleg vinnubrögð og fjallað hefur verið um mál þar jafnvel þó að það séu aðeins einn eða tveir nefndarmanna sem telja að mál þurfi ítarlegri umfjöllun. M.a. eru dæmi þess innan allshn. að mál sem þegar hefur verið afgreitt á einu þingi út úr nefndinni með meiri hluta, að vísu ekki hinum hefðbundna meiri hluta heldur meiri hluta stjórnarandstöðu og nokkurra stjórnarþingmanna hafa verið tekin til efnislegrar umfjöllunar við endurflutning ári síðar þrátt fyrir að umfjöllun sé lokið og að sjálfsögðu hefur verið orðið við slíku. Nú bregður hins vegar svo við í morgun að það er ekki hvað sem reynt er hægt að fá lágmarks efnislega umfjöllun um það sem nefndinni er ætlað að gera og ber skylda til að gera samkvæmt þingsköpum. Því er einfaldlega vísað á bug og í krafti meiri hluta er knúið í gegn að málið sé afgreitt úr nefndinni án þess að nefndin vinni sitt verk sem henni er ætlað að gera og ber skylda til að gera. Þetta er algjörlega forkastanlegt. Það kom fram á fundi nefndarinnar í morgun að þetta hefði ekki þurft að verða til þess að tefja þetta mál á nokkurn hátt og það var ekki vilji neins. En það er einfaldlega eitthvað annað sem er verið að stöðva ef málið þolir ekki að það sé fjallað efnislega um hvort rök séu fyrir því að samþykkja þessa tillögu eða fella. Þar af leiðandi sé ég mig knúna til þess að gera alvarlegar athugasemdir við störf þingsins.